//
Um mig

Ég heiti Kristín Jónsdóttir, fædd í Reykjavík, uppalin í Breiðholtinu. Eftir stúdentspróf úr MR 1989 var ég ekki í nokkrum vafa, ég vissi að París var næsti áfangastaður og þangað fór ég sem au-pair í eitt ár, en árin urðu mun fleiri.

Ég lauk diplómunámi í myndbanda- og kvikmyndagerð og kom að gerð nokkurra stuttmynda sem skrifta og aðstoðarmaður klippara. Ég vann um hríð sem bóksali við Signubakka og síðar sem þjónn á veitingastað.

Haustið 1995 ákvað ég að gefa Íslandi tækifæri á ný og flutti heim í október. Ég vann á Símanum í smá tíma en fór svo í Háskóla Íslands og tók BA-nám í frönsku.

París togaði fast í mig og ég vann þar á sumrin með náminu. Ég var skiptinemi í Montpellier einn vetur og skrifaði þar BA ritgerðina. Þegar ég flutti til baka til Parísar hóf ég samstarf við ferðaskrifstofuna Terra Nova og tók á móti hópum á þeirra vegum í nokkur ár. Þegar skrifstofan var seld lögðust skipulagðar ferðir til Parísar af en ég ákvað að halda áfram á eigin spýtur og Parísardaman.com varð til.

Þetta smáfyrirtæki mitt hefur gengið vonum framar. Fjölmargir Íslendingar hafa komið með mér í gönguferðir og stærri og smærri hópar hafa fengið mig til að skipuleggja ýmsar skemmtilegar uppákomur. Nýlega lauk ég leiðsögunámi/menningarmiðlun og er nú löggiltur leiðsögumaður í Frakklandi.

Í bland við gönguferðirnar er ég þýðandi og lauk M.A prófi í þýðingafræðum vorið 2013. Ég þýði auglýsingabæklinga, samninga, skýrslur, dómsskjöl og annað tilfallandi. Haustið 2011 kom þýðing mín á skáldsögunni Rannsóknin eftir Philppe Claudel út hjá Bjarti og Í trúnaði eftir Hélène Crémillon vorið 2013. Hin stórfína japanska skáldsaga Stjörnur yfir Tókýó eftir Hiromi Kawakami kom svo út nú í vor, 2015, en vegna skorts á þýðendum úr japönsku var ég fengin til að snara henni úr frönsku yfir á íslensku.

Ég er gift frönskum manni, Arnaud, og við eigum tvö börn, Sólrúnu og Kára. Við búum nú rétt utan við borgarmörkin, í litlum bæ sem heitir Romainville en er oftast nefndur Copavogure hér á heimilinu.

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: