//
Dagsferðir í nágrenni Parísar

 GÖNGUFERÐ Í NÁTTÚRUNNI

Parísardaman þekkir nokkrar skemmtilegar gönguleiðir í nágrenni Parísar.
Þá er hægt að taka lest frá París, ganga ákveðna leið að annarri lestarstöð til að komast til baka. Hafið samband ef þið óskið eftir slíkri ferð og við setjum saman pakka sem hentar ykkur.

Giverny

Umhverfis París eru ótal lítil sveitaþorp, hvert öðrum fegurri. Fá þorp standast samanburð við Giverny, þar sem listmálarinn Claude Monet bjó í 40 ár og skapaði hinn fagra blómagarð og tjörnina með vatnaliljunum sem eru í aðalhlutverki í síðustu verkum hans, myndunum sem hann gaf Frakklandi og eru sýnd í Orangerie safninu í París.
Heimsókn í garðinn hans jafnast á við dag í heilsulind. Það skiptir í raun ekki máli á hvaða tíma er komið, frá apríl til októberloka, garðurinn er sífellt með eitthvað blómstrandi. Ég get þó hiklaust mælt með heimsókn í apríl þegar kirsuberjatrén eru í fullum blóma, sem og að sumri (júní, júlí, ágúst) þegar vatnaliljurnar hafa sprungið út. En jafnvel í lok október eru enn blóm í ýmsum beðum og vatnaliljublöðin með haustlitum eru falleg þótt engin séu blómin.
Garðurinn er lokaður frá nóvember til mars, sem og flest annað í þorpinu.
Húsið hans er mjög fallega útbúið og hefur verið geymt óbreytt og í sömu litum og Claude Monet ákvað að herbergin ættu að vera máluð, en stóra vinnustofan, skemman þar sem hann málaði stóru vatnaliljuverkin sem sýnd eru í Orangerie-safninu í París hýsir nú verslun með minjagripum og gjafavöru.
Í Giverny býr líklega eingöngu vel stætt fólk, gömlum steinhúsunum er sérlega vel við haldið og gaman að gægjast inn í garðana. Skemmtilegt er að fá sér léttan hádegisverð eða drykk hjá Baudy, en þar hittust listamennirnir forðum. Ekki gleyma að skoða bakgarðinn, en þar er m.a. listamannavinnustofa og ýmislegt skemmtilegt.
Einnig er hægt að ganga upp í hæðirnar og borða heimatilbúið nesti í grænni lautu með útsýni yfir Signudalinn. Það eru og góðar grasflatir með trjám inni í þorpinu, ætlaðar fyrir lautarferðir fyrir þau sem ekki geta gengið á brattann.
Í Giverny eru mörg lítil gallerí og vinnustofur listamanna og safn sem sýnir verk amerískra impressjónista, en þeir hrifust mjög af Monet og komu margir til að vinna í Giverny í námunda við meistarann.
Þessi ferð hentar mjög vel fólki sem á erfitt um gang, mikið af bekkjum til að hvílast og stuttar vegalengdir. Fært hjólastólum og hægt að fá lánaðan stól.

Verð í dagsferð til Giverny fer eftir fjölda og hvort leigð er rúta o.s.frv.

EF ÞÚ VILT FARA Á EIGIN VEGUM:
Lestir fara allan daginn frá Gare Saint Lazare til VERNON. Þaðan eru um 3 km til Giverny. Hægt er að leigja hjól á lestarstöðinni, mjög sniðugt fyrir þau sem vilja taka með sér nesti og skoða betur sveitirnar í kringum þorpið. Einnig er hægt að ná strætó eða ganga sjálf þessa stuttu leið, mjög auðvelt og vel merkt frá lestarstöðinni.
http://www.fondation-monet.com/
http://giverny.org/
http://alumnus.caltech.edu/~rbell/France/Giverny.html

Kampavínsferð

Ferð í kampavínshéraðið (Champagne) svíkur engan sem á annað borð þykir gaman að drekka kampavín og/eða fræðast um víngerðarlistina. Ekki skemmir svo fagurt landslag, Marne-dalurinn, vínekrurnar og falleg þorp.
Heimsókn í tilkomumikla kalksteinshella Champagne Pannier þar sem við fáum að sjá með eigin augum og fræðast á skýran hátt um hið flókna ferli kampavínsgerðarinnar. Að sjálfsögðu er svo skálað í lok heimsóknarinnar og hægt að kaupa flöskur.
Ekið eða tekin gönguferð um sveitirnar, meðfram Marne-ánni og komið við í Charly-sur-Marne, en þar er eftirlætis kampavínsbóndinn minn með litla og fallega búð með vörum beint af býli inni í portinu hjá sér. Lautarferð á rómantískum stað með útsýni yfir vínekrurnar.
Athugið að þessa ferð þarf helst að panta með góðum fyrirvara og ekki hægt að ábyrgjast að Pannier taki á móti smáum hópum á hverjum degi.

Verð í dagsferð til Champagne fer eftir fjölda og hvort leigð er rúta o.s.frv.

Ef þú vilt fara á eigin vegum til Pannier og í Charly-Sur-Marne, þarf að vera á bíl.

Versalir

Parísardaman hefur um árabil boðið upp á vinsælar dagsferðir til Versala. Hallirnar og garðarnir eru vissulega fallegir og svæðið varðveitir magnaða sögu þriggja einvaldra konunga, drottninga og hirða þeirra. Napóleon og fleiri fyrirmenni 19. aldarinnar nýttu einnig staðinn og skildu eftir sig spor. Undanfarið hafa Versalir notið mikilla endurbóta og um leið hefur svæðið verið auglýst gífurlega vel. Auk erlendu gestanna sem flykktust þangað jafnt sumar sem vetur hafa nú franskir ferðalangar tekið upp á því að leggja leið sína til Versala í miklum mæli aftur. Ferðamannastraumurinn hefur í raun náð þolmörkum. Biðraðir, þrengsli og skortur á salernisaðstöðu gera þennan áfangastað minna eftirsóknarverðan en áður.
Athugið að ég býð mínar ferðir með pöntun inn í höllina, svo við sleppum við mestu raðirnar.

Versalaferðin er ógleymanlegur dagur, saga konunga og drottninga, aðdragandi byltingarinnar, yfirdrifið skrautið í höllunum þremur, litla sveitaþorp Maríu Antoníettu og garðarnir með öllum sínum leynistöðum, trjágöngum, gosbrunnum og styttum.

Langur dagur og frekar mikil ganga, en öllum fær sem á annað borð eru göngufærir.
Ég mæli með góðum skóm, sólkremi, sólgleraugum og sólhatti ef það á við, annars fötum í samræmi við veðurspá.
Það er aðgengi fyrir fólk með fötlun í höllum og görðum og hægt að sníða ferðina að hvers konar sérþörfum. Hægt er að fá lánaðan stól inni í höllunum en garðurinn er fær hjólastólum fyrir gesti sem koma með sinn eigin.

UM HELGI OG Á ÞRIÐJUDÖGUM – apríl til loka október:
Um helgar er kveikt á gosbrunnum á ákveðnum tímum og ferðin miðast við að sjá sem flesta af þeim. Best er að fara eldsnemma af stað og vera komin í stóru höllina við opnun, en þá þarf að panta með góðum fyrirvara. Við förum í opinberar íbúðir konungs og drottningar og hápunkturinn er vitanlega Speglasalurinn, dans- og móttökusalur Loðvíks 14. sem síðar var fundarstaður uppgjörs fyrri heimsstyrjaldarinnar, hvar Versalasamningarnir umdeildu voru undirritaðir.

Eftir höllina er svo fyrri gosbrunnasýning og að því loknu er kominn tími á hádegisverðinn (rauðvín, ostar, skinka, brauð og ávextir, súkkulaði og vatn – það má að sjálfsögðu koma með séróskir).
Þá er farið í smærri hallirnar (Grand og Petit Trianon), garðar og sveitaþorp Maríu Antóníettu skoðuð.
Að lokum náum við að sjá seinni hluti gosbrunnasýningarinnar.

MIÐVIKUDAGA TIL FÖSTUDAGA:
Farið úr bænum upp úr kl. 10:30, til að vera komin í tæka tíð þegar opnar í smærri hallirnar (Grand og Petit Trianon). Gengið um garða og yfir í sveitaþorp Maríu Antóníettu. Þá er hádegisverðarstopp  (rauðvín, ostar, skinka, brauð og ávextir, súkkulaði og vatn – það má að sjálfsögðu koma með séróskir), og að lokum er stóra höllin heimsótt: opinberar íbúðir konungs og drottningar. Hápunkturinn er vitanlega Speglasalurinn, dans- og móttökusalur Loðvíks 14. sem síðar var fundarstaður uppgjörs fyrri heimsstyrjaldarinnar, hvar Versalasamningarnir umdeildu voru undirritaðir.

Verð í Versalaferð fer eftir fjölda og hvort leigð er rúta o.s.frv. Miðar eru dýrari um helgar og stundum á þriðju- og föstudögum því þá er tónlist spiluð í garðinum.

EF ÞÚ VILT FARA Á EIGIN VEGUM:
Rer C fer frá París (Gare d’Austerlitz, Saint Michel, Orsay, Bir Hakeim) og beint í Versali (Versailles Chateau Rive Gauche). Hér má hlaða niður leiðsagnarforriti.

Fontainebleau

Fontainebleau-kastalinn hýsti konunga, drottningar, keisara, keisaraynjur og hirðir þeirra allt frá miðöldum og fram yfir frönsku stjórnarbyltinguna, í átta aldir samfleytt. Skreytingar og innbú er oft afar markvert og má sérstaklega nefna íburðamikil salarkynni frá endurreisnartímabilinu. Þarna er gott safn listaverka frá ýmsum tímum sem og húsgagna, en hápunkturinn er efalítið Napóleonssafnið. Þar má m.a. skoða ferðabúnað keisarans og er ekki ólíklegt að ýmsum þyki nóg um stærð snyrtitöskunnar sem hann skildi aldrei við sig. Sá hefur nú getað snyrt hár og skegg með ýmsum gerðum af skærum og klippum og þótt sagan segi að hann hafi beðiðJósefínu um að fara ekki í bað þegar von var á honum heim úr ferðum, var hann sjálfur með gott magn af ilmvötnum í farteskinu.
Garðurinn umhverfis höllina er fallegur og hefðbundinn hallargarður, ekki „nema“ 130 hektarar. Þar sem tiltölulega flókið er að komast á staðinn nema á einkabíl, er ferðamannastraumurinn ekki eins yfirþyrmandi og í Versalahöllinni.

Verð í dagsferð til Fontainebleau fer eftir fjölda og hvort leigð er rúta o.s.frv

EF ÞÚ VILT FARA Á EIGIN VEGUM:
Það fer lest frá Gare de Lyon (grandes lignes), endastöðvar eru Montargis, Montereau eða Laroche-Migennes, fara út á stöðinni Fontainebleau-Avon. Þaðan þarf svo að taka strætisvagn númer 1, endastöðin heitir Les Lilas, fara út á Château.

Montfort l’Amaury og Maison Louis Carré

Montfort l’Amaury er eitt af þessum „ekta frönsku sveitaþorpum“, steinlagðar götur og gömul hús sem er þó afar vel við haldið, enda er þetta staður sem hefur verið vinsæll hjá stjörnum og minni stjörnum sem eiga pening. Í þessu þorpi bjó tónskáldið Ravel og hægt er að heimsækja húsið hans, sem er örsmátt en undurfallegt. Þar hefur öllu verið haldið til haga og er líkt og hann hafi bara skroppið í göngutúr að koma þarna inn. Eftir gönguferð um þorpið með viðkomu hjá kastalarústunum er ekið að húsi listaverkasafnarans og -salans Louis Carré, en hann fékk engan annan en finnska arkitektinn Alvar Aalto (Norræna húsið í Reykjavík) til að teikna fyrir sig hús og alla innviði og innbú í það líka. Þar ríkir svipuð heimilisleg stemning, þótt hinar hreinu tæru línur finnska arkitektsins séu í örlítið stofnanalegri anda heldur en þeim sem ríkir hjá tónskáldinu Ravel.
Athugið að þessi ferð er eingöngu í boði um helgar og að hús Louis Carré er lokað yfir myrkustu mánuðina, des-jan-feb.

Rósagarðurinn við Chaalis-klaustrið

Yndislegur rósagarður sem vert er að heimsækja þegar rósirnar eru blómstrandi, frá maí fram á haust. Dálítið langur akstur en stuttar vegalengdir sem þarf að ganga. Þarna má sjá rústir klaustursins sem eyðilagt var í frönsku stjórnarbyltingunni í lok 18. aldar en kapellan slapp og hana má skoða sem og kastala sem hýsir listaverk úr einkasafni Nélie Jacquemart, sem ánafnaði Menningarmálastofnun Frakklands (Institut de France) landareignina og allt sem henni fylgir, þegar hún féll frá, 1912. http://www.chaalis.fr/fr

Verð í dagsferð til Chaalis fer eftir fjölda og hvort leigð er rúta o.s.frv.

Ef þú vilt fara til Chaalis á eigin vegum, er nauðsynlegt að leigja bíl.

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: