//
Til og frá flugvöllum

Til og frá flugvöllum:

Beint flug til og frá Íslandi með Wow og Icelandair fer í gegnum Roissy – Charles de Gaulle flugvöllinn.

Beint flug til og frá Íslandi með Transavia fer í gegnum Orly Sud flugvöllinn.

FYRIR EINSTAKLINGA FRÁ ROISSY CHARLES DE GAULLE TIL PARÍSAR:

STRÆTISVAGNAR

Strætó nr. 350 fer til Gare de l’Est. Verð 2,10€ (2023). Ca 60 – 80 mín.
Strætó nr. 351 fer til Nation. Verð 6€ (2023). Ca 70 – 90 mín.
Ódýrasta leiðin inn í borgina/út á völl, en kannski ekki þægilegust, getur verið mjög troðinn.

ROISSYBUS fer á Opéra (gamla óperuhúsið, á horninu á rue Scribe og rue Auber) – verð 16,20 € önnur leið (2023). Í þennan vagn gilda einnig metró/strætópassar fyrir 5 zone. Ca 75 mín.

LEST

Hentar alls ekki fólki sem á erfitt með gang eða sem er með mikinn farangur en getur verið skemmtileg upplifun fyrir þau sem treysta sér og vilja spara pening. Reiknið með a.m.k. klukkustund í ferðina.

Frá Terminal 1 (Icelandair og Play) þarf fyrst að taka CDGVAL sem er lest sem fer milli flugstöðvarbygginga og á lestarstöðina. Það er ókeypis. Fylgið merkingum „train to Paris“.
Frá Terminal 2 er einnig nóg að fylgja merkingum „train to Paris“, til að finna lestarstöðina.
Frá Terminal 3  er gengið eftir yfirbyggðri göngubraut út á lestarstöðina. Vel merkt.
Á lestarstöðinni þarf að kaupa miða, í lúgu eða í sjálfsala með korti. Nóg er að segja París, miðinn gildir áfram ef skipta þarf yfir í metrólest í borginni og sama verð er fyrir alla áfangastaði í borginni. Verð: 10,30 € (2023). Þegar þetta er ritað eru vel merktir aðstoðarmenn í því að hjálpa fólki í sjálfsölunum, en varist svikahrappa sem geta mögulega laumað sér að ykkur (sjá hér).
Lestin heitir RER B og stoppar á nokkrum stöðum í París: Gare du Nord (Nord) (tenging við línur 2, 4 og 5), Châtelet – Les Halles (tenging við línur 1, 4, 7 og 11 og RER A), Saint Michel (tenging við línu 11 og RER C), Denfert Rocherau (tenging við línu 4) og Cité Universitaire.
Þegar farið er með RER B upp á völl, er farið út á fyrri stoppistöðinni fyrir Terminal 1 (Icelandair og Play). Hún er merkt Aéroport Ch. de Gaulle 1.

Hér er gott yfirlit yfir alla möguleika með lestar- og strætókerfinu, sem hafa verið taldir hér upp.

LEIGUBÍLL

VARÚÐ! Ekki taka bíla með hörkurum sem reyna að veiða fólk við útganginn. Þeir eru iðulega dýrari og margoft rata þeir illa.
Leigubílaröðin gengur alltaf hratt og vel fyrir sig. Starfsfólk flugvallar sér um það. Verð frá Roissy Charles de Gaulle til Parísar hefur nú verið fest í 55 og 62 € (2023, dýrara að fara yfir Signu, í suðurhluta borgarinnar, á vinstri bakkann).  Mikilvægt er þó að fylgjast með því að mælirinn sé settur í gang. Ekki má lengur rukka aukalega fyrir töskur eða aukafarþega, en sumir bílstjórar neita að taka farþega frammí.
Umferð gengur yfirleitt vel fyrir sig á algengustu komutímum vélanna frá Íslandi (eldsnemma að morgni, um hádegisbilið eða seint að kvöldi).

Hægt er að panta sérleigubíl, air port shuttle. Ýmis fyrirtæki bjóða þá þjónustu, en mér skilst að það sé ekki hentugt nema fyrir þá sem fylla heilan bíl, annars getur maður lent í því að rúnta lengi um borgina með farþega sem fara annað, svo ég þori hreinlega ekki að mæla með þessari leið.

FYRIR EINSTAKLINGA FRÁ ORLY SUD TIL PARÍSAR:

STRÆTISVAGNAR

ORLYBUS gengur til og frá Denfert Rochereau. 11,20 € (2023), ca 25 – 35 mín.

Aðrir möguleikar, sjá hér.

LEST

ORLYVAL + RER B
Þið kaupið miðann í sjálfsölum eða afgreiðslu þar sem Orlyval lestarskutlan fer frá vellinum. Verð samtals 14,10 € (2023). Til að komast upp á völl fæst miðinn í öllum miðasölum og sjálfsölum í París.
Takið Orlyval (eltið Paris by train – merkingar). Skiptið yfir á RER B á endastöðinni, sem er í Antony. Mjög greinilega merkt. RER B stoppar á nokkrum stöðum í París: Cité Universitaire,Denfert Rocherau (tenging við línu 4), Saint Michel (tenging við línu 11 og RER C), Châtelet (tenging við línur 1, 4, 7 og 11 og RER A) og Gare du Nord (Nord) (tenging við línur 2, 4 og 5).

LEIGUBÍLL

VARÚÐ! Ekki taka bíla sem ykkur er boðið við útganginn. Þeir eru iðulega dýrari og margoft þekkja harkararnir ekki borgina nógu vel.
Fylgið leiðbeiningum starfsfólks og skiltum sem benda á TAXI.
Leigubílaröðin getur stundum virst löng, en hún gengur alltaf hratt og vel fyrir sig. Starfsfólk flugvallar sér um það. Leigubíll frá Orly til Parísar kostar nú 31 og 45 € (kostar meira að fara yfir Signu, í norðurhluta borgarinnar).
Mikilvægt er að fylgjast með því að mælirinn sé settur í gang. Ekki má lengur rukka aukalega fyrir töskur eða aukafarþega, en bílstjórar geta enn neitað að taka farþega frammí.
Umferð gengur yfirleitt vel fyrir sig á algengustu komutímum vélanna frá Íslandi (eldsnemma að morgni, um hádegisbilið eða seint að kvöldi).

Hægt er að panta sérleigubíl, air port shuttle. Ýmis fyrirtæki bjóða þá þjónustu, en mér skilst að það sé ekki hentugt nema fyrir þá sem fylla heilan bíl, annars getur maður lent í því að rúnta um borgina með farþega sem fara annað!

—————-

Tómas Halldórsson – atvinnubílstjóri
Akstur milli flugvalla og Parisar méð íslenskum bílsjóra, Orly og Rossy CDG
Verð   Orly – Paris 45 evrur  –  Rossy CDG  50 evrur.
Tek 5 evrur aukalega fyrir að fara yfir Signu.
Hafið samband í síma 0033 (0)767217358 – 0033(0)146279881 – poledecors@gmail.com

Parísardaman getur pantað rútur fyrir hópa, gegn vægu gjaldi. Minnst 12 manna bílar, en getur hentað hópum frá 8 og upp úr.

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: