Leigubílarnir taka líka sjaldan fleiri en þrjá í bíl, vilja iðulega ekki farþega frammí. Athugið að Uber bílar mega ekki fara eftir strætó-akreinum, eins og venjulegir leigubílar mega. Leigubílarnir eru því öruggara val, ef liggur á. Á toppi bílanna er TAXI-merkið með ljósmerkingar: grænt ljós þýðir að bíllinn er laus, rautt ljós þýðir að hann er upptekinn. Best er að finna stoppistöðvar, merktum með áberandi bláu TAXI-skilti.
Til að hringja á bíl, er betra að kunna frönsku, því svarkerfið er sjálfvirkt, og það þarf að stimpla inn heimilisfang. Símanúmer hjá G7 er 3607.
Erfitt getur verið að fá leigubíla á annatímum og umferðin oft það mikil að það borgar sig ekki.
Metró (neðanjarðarlestarkerfið) er besti ferðamátinn fyrir þá sem eru vel göngufærir, öruggur og þægilegur.
Kort af metrókerfinu finnst yfirleitt í móttökum hótela ásamt kortinu af París. Miðar fást niðri á lestarstöðvunum og gilda einnig í strætó, miðar eru einnig seldir í Tabac (tóbakssölum) og hjá sumum blaðasölum. Langflestar metróstöðvar bjóða nú eingöngu upp á að miðarnir séu keyptir í vélum. Stundum hægt að greiða með reiðufé, en allar taka þær kort.
Ath söguna af svikahröppum sem finna má hér.
Hver lína liggur í tvær áttir sem heita eftir endastöðinni. Þannig er nóg að finna stöðina sem maður vill fara á, finna svo endastöðina í þá átt og þannig veit maður hvaða pall á að leita uppi. Vel merkt, bara horfa upp í loft.
Sama gildir ef þarf að skipta um lest, finna fyrst skiptistöðina og pallinn fyrir hana o.s.frv.
VERÐ (uppfært í febrúar 2022)
Stakur miði t+ 1,90 € (ticket +) – stakur miði kostar 2€ í strætisvögnum. Strætó býður upp á miðakaup í gegnum app, einfaldlega með því að senda sms. Númerið er auglýst í vagninum.
Hver miði gildir eina ferð fyrir eina manneskju og má skipta um lest eins oft og vill í 2 klukkustundir. Þegar farið er út um hliðin, fellur miðinn úr gildi og þarf nýjan miða í næstu ferð. Til að komast inn á miðanum, þarf að renna honum í gegnum lítið gat á hliðinu, hann kemur upp annars staðar og það þarf að taka hann úr raufinni til að hliðið opnist. Ef miðinn er ógildur (notaður eða hefur afseglast) pípir hliðið og opnast ekki. Miðann þarf að geyma alla ferðina, á sumum stöðvum þarf hann líka til að komast út eða til að skipta um lest og á öllum tímum geta verðir beðið um að fá að sjá hann og sekta þá sem ekki framvísa miða.
Á sumum lestarstöðvum er enn hægt að kaupa carnet – 10 miða á 16,90€, en smátt og smátt er verið að láta þessi búnt hverfa. Í staðinn er komið áfyllingarkort, Navigo Easy, sem kostar 2€ og sem er svo hægt að fylla á. Þessi kort getur aðeins ein manneskja notað í einu.
Einnig er hægt að kaupa sérstaka ferðamannapassa, Paris Visite sem gildir í 1, 3 eða 5 daga. Sjá http://ratp.fr/ (smellið á enska fánann og þá fáið þið strax allar upplýsingar). Þessi miði er dýrari, en felur í sér ýmsan afslátt og gefur leyfi til að fara fremst í raðir á ákveðin söfn.
Nokkur orð sem gott er að skilja:
Skipting= correspondance, sortie=útgangur, direction=átt línunnar.
Strætó getur verið skemmtilegri leið til að komast milli staða í staðinn fyrir að vera ofan í metrógöngum. En kerfið er flóknara og ekki beint aðlagað að ferðafólki. Parísardaman getur samt alveg mælt með því fyrir ævintýragjörn, að hoppa upp í vagn og sjá hvert hann leiðir ykkur. Líklega er þó öruggara að passa sig á því að lenda ekki lengst úti í úthverfi á endastöð og þurfa að bíða lengi eftir vagni til baka, eins og kom fyrir mig í Noregi forðum. 🙂
Lokað er á athugasemdir.