Verslanir eru yfirleitt opnar kl. 10-20 alla daga vikunnar. Sumar eru lokaðar á sunnudögum og/eða á mánudögum.
Það eru búðir út um allt í París, en hér ætla ég að nefna nokkra verslunarkjarna og búðir sem þið gætuð haft áhuga á að skoða:
Monoprix er keðja svipuð Hagkaupum. Þar getur verið sniðugt að líta á t.d. barnafötin sem eru á góðu verði. Út um alla París, best að spyrja á hótelinu hvort einhver sé í nágrenni ykkar, eða skoða listann á vefsíðunni.
Forum des Halles (Metró: Les Halles) er verslunarmiðstöð í miðborginni (1. hverfi), stór og mikil og nýlega uppgerð. Sum eiga erfitt með að rata um hana, en það eru kort út um allt. Þar er m.a. stór HogM búð með nánast allar línurnar og langbestu barnafatadeildina. Hér er vefsíða með lista yfir allar búðirnar þarna.
Rue de Rivoli (metró: Châtelet , Hôtel de Ville o.fl.) er eins konar Laugavegur þarna rétt hjá. Þar eru Gap, C&A, Zara, Body Shop o.m.fl.
Rue Etienne Marcel (metró: Etienne Marcel) og göturnar þar um kring (rue du Jour, rue Montmartre, place des Victoires) eru með dýrari og fínni merkin í prêt-à-porter, s.s. Esprit, Agnès B, Gerrutti Jeans, Diesel, Miss Sixty og ýmsa unga hönnuði.
Rue des Francs Bourgeois (metró: Saint Paul/Bastille) er aðal verslunargatan í Mýrinni. Campers, L’Occitan, Benzimon, Make up forever, Mac, Uniqlo …
Montparnasse (Metró: Montparnasse Bienvenue) neðst í turninum er ágæt verslunarmiðstöð með C&A verslun. Þaðan liggur svo stóra búðagatan Rue de Rennes niður á Saint Germain des Près í vesturjaðri Latínuhverfisins þar sem úir og grúir af galleríum og litlum fínum sérverslunum í litlu götunum frá kirkjunni og niður að Signu.
Þríhyrningurinn rétt við Bon Marché (sjá vöruhúsin hér neðar) sem myndast af rue de Sèvres, rue des Saints Pères og boulevard Saint Germain er þéttsettur fallegum (og um leið dýrum) skóbúðum. Við rue du Four og rue du Dragon eru einnig margar fallegar skó- og fatabúðir.
Rue du Commerce er verslunargata í 15. hverfi og þar má finna áhugaverðar búðir sem finnast jafnvel ekki annars staðar. Í næsta nágrenni er svo verslunarmiðstöðin Beaugrenelle, sem er ágætlega heppnuð, því hún er lítil og oftast gengið inn í búðirnar frá götu.
Rue Mouffetard er drottning Latínuhverfisins, og þar má finna nokkrar skemmtilegar kvenfatabúðir. Bæði „mjónubúðir“ með fallegum og litríkum kjólum og blússum fyrir þær grönnu og svo eru þarna a.m.k. tvær búðir með hippalegri fötum, kjólum úr hör og öðrum góðum efnum fyrir frjálslega vaxnar konur. Gatan er ekki mjög löng, og skemmtilegt að ganga hana alla. Þarna er líka frábær búð sem selur franskar bíómyndir á DVD og tónlist. Eigandinn elskar að ráðleggja túristum og leyfa þeim að hlusta.
La Défense (Metró: La Défense) er RISASTÓR verslunarmiðstöð í framtíðarhverfinu La Défense. Samferðafólk sem ekki hefur áhuga á búðunum getur skoðað nútímaarkitektúr og fengið sér göngutúr um hverfið sjálft á meðan. Mæli með útsýnisferð upp í Arc de la Défense, sem er sigurboginn hans Mitterands heitins.
Önnur stór verslunarmiðstöð er Bercy 2. Þangað kemst maður með strætisvagni númer 24, sem fer t.d. frá metróstöðvunum Gare de Lyon eða Cours Saint Emilion (sjá kort af strætóleið)
Svo eru það vöruhúsin eða magasínin (på dansk):
Þarna eru sem sagt svo til öll fínu merkin undir einu þaki, í staðinn fyrir að vera í sérbúðum eins og í verslunarmiðstöðvunum eða á Laugavegunum. Fyrir þessi þægindi þarf að borga því allt er dálítið dýrara þarna, á móti kemur að auðveldara er að fá söluskattinn endurgreiddan (détaxe) ef keypt er fyrir nægilega háa upphæð (175 evrur). Ódýru merkin eru yfirleitt ekki með sölubása í vöruhúsunum.
Les Galeries Lafayette og Printemps eru uppi á Boulevard Haussmann beint fyrir aftan gömlu óperuna. Metró: Chaussée d’Antin eða Opéra. Galeries Lafayette er reyndar með útibú á nokkrum stöðum, m.a. í Montparnasse verslunarmiðstöðinni.
Le Bon Marché er í Saint Germain des Près hverfinu. Metró: Sèvres-Babylone. Þetta vöruhús er með afar háan standard. Ég játa að ég fer þangað stundum bara til að horfa á allt dýra stöffið, jafnast á við heimsókn á safn, og mér finnst furðulega gaman að glápa í laumi á ríka fólkið sem virðist vafra þarna um í leit að hamingjunni. Í götunum umhverfis Bon Marché er mikið af fallegum búðum, auk gatnanna sem ég nefndi hér ofar, er rue du Bac skemmtilega falleg búðagata.
BHV eða Bazar de l’Hôtel de Ville er við ráðhústorgið sem er á miðjum Rivoli-Laugaveginum, metró: Hôtel de Ville. BHV er vöruhúsið sem allar „alvöru“ Parísardömur og -herrar nota til að kaupa ýmsa nytjahluti aðra en föt s.s. krem, hárbursta, og ýmislegt fyrir heimilið. Í kjallara BHV er risastór byggingavörudeild sem er áhugavert að skoða fyrir alla þá sem hafa gaman af því að dytta að heimilinu eða sumarbústaðnum. Þar er líka gríðarlegt úrval af ljósaperum. Á 2. hæð er ritfanga- og föndurdeild og vefnaðarvöru- og prjónadeildin er á 5. hæð. (Með fyrirvara um að vöruhúsin eru stundum endurskipulögð og deildir fluttar til!).
Hér áður fyrr voru flóamarkaðirnir næstum einu staðirnir þar sem hægt var að finna almennileg notuð föt. Í dag blómstra þessar svokölluðu vintage-búðir um alla borg, sérstaklega hefur þeim fjölgað í Mýrinni (4. hverfi). Á frönsku heitir þetta „friperie“ eða til dæmis „dépot vente de vêtements vintage“.
Flóamarkaðirnir:
Ég nefni þá eftir metróstöðvunum, sem er venjan hér. Þið fylgið svo bara fólksfjöldanum frá metró. Athugið að flóamarkaðirnir eru aðeins opnir lau – sun – mán.
Porte de Montreuil (mátulega stór, flott föt).
Porte de Vanves (minnstur, aðeins dýrari en stundum hægt að finna fjársjóð).
Porte de Clignancourt: Risastór flóamarkaður þar sem ægir saman, nýjum og notuðum fötum, gömlu skrani og fokdýrum antíkmunum. Opið laugardaga, sunnudaga og mánudaga kl. 8-18.
Metró : Porte de Clignancourt – athugið að fyrsti hlutinn, næst metró, eru básar sem reistir eru á íþróttavelli. Þar er dálítið kolaportsleg stemning. Það þarf að fara undir brúna og inn í Saint Ouen úthverfið, til að komast á fatamarkaðinn og antíkmarkaðina, sem skiptast í ýmsa hluta eftir þemum. Ekki hika við að smeygja ykkur inn í örsmáar göturnar og leyfið ykkur að villast. Vefsíðan þeirra er með kort yfir allt svæðið.
Veitingastaður á flóamarkaðinum:
Chez Louisette
136, avenue Michelet
93400 Saint Ouen
Fremur vel falið afdrep fyrir sölumenn og kaupendur á flóamarkaðnum sem geta gleymt nútímanum og hrokkið aftur um nokkra áratugi með hjálp söngvara sem taka franska slagara við undirleik af skemmtara á sunnudagseftirmiðdögum. Ótrúlegar jólaskreytingar allt árið um kring. Gott að borða (t.d. kræklinga) eða bara fá sér eitt vínglas, bjór eða kaffi eftir að hádegistörninni er lokið. Til að finna staðinn er best að spyrja til vegar, en hann er inni á Marché Vernaison, sem er mjög skemmtilegt svæði í þröngum götum.
Mýrin (75004 París) – í réttri röð ef gengið er frá Hôtel de Ville:
Free´p´star – fjórar búðir í Mýrinni: 8, rue Sainte Croix de la Bretonnerie – 52 og 61, rue de la Verrerie – 20, rue de Rivoli, 66 rue Saint Antoine og svo ein nær Les Halles: 51, rue Saint Denis.
Kiloshop – föt á kílóverði: 65 og 69-71, rue de la Verrerie og á fleiri stöðum.
Mamz’Elle Swing – 35, rue du Roi du Sicile – æðislegir kjólar 1920 – 1960. Ekki ódýrt, en alvöru stöff.
Vintage – 32, rue de Rosiers – pínulítil og vel valið úrval í þessa búð.
Come on Eileen – 40, rue de Rivoli – merkjavara og því frekar dýr
Aðrar keðjur með notuð föt víðsvegar um borgina:
Guerrisol
Emmaüs – hjálpræðisherinn, skrollið niður til að finna heimilisföngin.
Emmaüs Défi – Tvær stórar búðir í 19. hverfi, ekki fyrir viðkvæm 😉 – takið eftir opnunartímum sem eru óreglulegir.
Lokað er á athugasemdir.