//
Ýmislegt að sjá og gera

ANNAÐ AÐ SJÁ OG GERA:

Rútuferðir um borgina með leiðsögn í hátalara.
Til dæmis L’OpenTour, sem stoppar á öllum helstu ferðamannastöðum og hægt er að hoppa í og úr hvar sem fólk vill. Sjá nánar.

Eiffelturninn
Metró: Bir Hakeim
Óþarfi að kynna þessa 320 metra háu drottningu Parísar, sem var byggð 1889. Hér má skoða opnunartíma og kaupa miða.

Gamla óperan – Opéra Garnier
Metró: Opéra
Gamla óperubyggingin trónir yfir torginu þegar komið er upp úr metró.
Byggingarstílinn mætti kalla rjómatertustílinn. Öllum mögulegum tímabilum er þarna blandað saman og þótt ótrúlegt megi virðast, kemur það bara þokkalega vel út og alveg hægt að mæla með heimsókn. Athugið að spyrja hvort sjálfur sýningarsalurinn sé opinn (hann er lokaður þegar æfingar standa yfir) því hann er vel þess virði að sjá. Loftið í honum er skreytt af rússneska listmálaranum Marc Chagall.

Paris Story
11bis, rue Scribe
75009 Paris
s. 01.42.66.62.06
fax 01.42.66.62.16
Rétt fyrir aftan gömlu óperuna. Saga og uppbygging Parísar í máli og lifandi myndum. Það er sjálfur rithöfundurinn Victor Hugo (Vesalingarnir – Notre Dame de Paris) sem leiðir okkur með hjálp nútímatækni í gegnum sögu Parísar. Skemmtilegt fyrir þá sem vilja vita sem mest. http://www.paris-story.com/en/

Dómshöllin – Palais de Justice , er byggð upp úr leifum af miðaldakastala sem er á Cité-eyjunni rétt hjá Notre Dame. Þar er kapellan, La Sainte chapelle, með ótrúlega fallegum gluggum. Selt inn og oft langar raðir. Einnig er hægt að heimsækja Marie Antoinette í fangelsinu (La conciergerie), en þar er hún sjálf í vaxmynd. Hún var þar í haldi í nokkurn tíma og gafst tími til þess að átta sig á því að lýðurinn hafði að miklu leyti rétt fyrir sér og fyrirgaf böðlum sínum fyrirfram, svo segja má að hún hafi verið byltingarsinni þó að hún hafi endað líf sitt í fallöxinni eins og eiginmaðurinn Lúðvík 16.

Père Lachaise kirkjugarðurinn (metró: Père Lachaise) er vinsæll áfangastaður, m.a. vegna þess að þar hvílir Jim Morrisson úr The Doors og á leiði hans er oft mikið fjör og mikið drukkið af Malibu sem var víst uppáhaldsdrykkurinn hans. Legsteinarnir í kringum gröf hans eru hreinsaðir reglulega því sumir eru svo ósmekklegir að senda Morrisson skilaboð með úðabrúsalakki. Margir ódauðlegir hvíla þarna, má nefna nokkra: Edith Piaf, Oscar Wilde, Chopin, Yves Montand og Simone Signoret. Ef komið er inn um aðalinnganginn má koma við á skrifstofunni og biðja um kort yfir frægu leiðin. Þau má einnig kaupa af götusölum allt umhverfis garðinn.

Það er reyndar mjög áhugavert að heimsækja kirkjugarða í París því þeir eru svo ólíkir þeim sem við eigum að venjast að heiman. Steyptar grafir og lítil hús með hurðum og undarlega draugalegum gluggum gera garðana afar áhrifamikla. Père Lachaise er stærstur, en aðrir stórir eru t.d. garðarnir á Montparnasse og Montmartre. Ég mæli alveg með því að kíkja við í einum þeirra. Á kortum eru þetta stór græn svæði, stundum merkt með litlum krossum fyrir leiðin.

Holræsi Parísar – Les égouts de Paris
Við Alma-brúna, beint á móti 93, Quai d’Orsay
75007 Paris
s. 01.53.68.27.81
Metró: Alma-Marceau
Opið alla daga nema fimmtud og föstud kl. 11-17.
Holræsakerfi Parísar er ótrúleg hönnun og eitt af örfáum manngengum holræsakerfum í heiminum. Fyrir verkfræðinga og þá sem hafa gaman að neðanjarðargöngum.

Katakomburnar – Les Catacombes
1, place Denfert-Rochereau, 75014 Paris. s. 01.43.22.47.63. Metró: Denfert-Rochereau. Opið þri kl. 11-16 og mið-sun kl. 9-16. Lokað á mánudögum og frídögum. Um 45 mín, vera á góðum skóm og með vasaljós. Aðgangseyrir 5€.
Gamlar kalknámur sem voru nýttar undir bein úr gömlum kirkjugörðum þegar þeim var breytt í torg, eða byggt ofan á þá frá 1786 og allt til 1860. Napóleon fékk þá hugmynd að gera þetta fólki aðgengilegt og þá var beinunum raðað á mjög sérstakan hátt í eins konar skrautveggi. Ekki fyrir fólk með innilokunarkennd. http://www.catacombes.paris.fr/

Lautarferð (pique-nique) sparar málsverð á veitingahúsi. Ég mæli með því að kaupa brauð, ost og kæfu, vínflösku (eða vatn eða gos eftir smekk), pappaglös og pappadiska úti í matvörubúð og fara í lautarferð t.d. við Signubakka. Litlu vínbúðirnar opna flöskuna ef beðið er fallega, en annars fást tappatogarar (tire-bouchon) og upptakarar (ouvre bouteille) í öllum betri búðum.
Það er tilvalið að vera ábyrgur ferðamaður og vera ávallt með eigin margnota glas (og jafnvel disk og hnífapör) í farteskinu á ferðalögum. Bambusborðbúnaður er til dæmis léttur og fallegur og fæst víða.

Flóamarkaðurinn á Porte de Clignancourt (Les Puces de Saint Ouen)
Risastór flóamarkaður þar sem ægir saman nýjum vörum á betra verði og yfirleitt fokdýrum antíkmunum. Opið laugardaga, sunnudaga og mánudaga kl. 8-18.
Metró : Porte de Clignancourt – athugið að fyrsti hlutinn, næst metró, eru básar sem reistir eru á íþróttavelli. Þar er mest af nýjum vörum, dálítið kolaportsleg stemning. Það þarf að fara undir brúna og inn í Saint Ouen úthverfið, til að komast í antíkmarkaðina, sem skiptast í ýmsa hluta eftir þemum. Ekki hika við að smeygja ykkur inn í örsmáar göturnar og leyfið ykkur að villast. Vefsíðan þeirra er með kort yfir allt svæðið.

Veitingastaður á flóamarkaðinum:
Chez Louisette
136, avenue Michelet
93400 Saint Ouen
Fremur vel falið afdrep fyrir sölumenn og kaupendur á flóamarkaðnum sem geta gleymt nútímanum og hrokkið aftur um nokkra áratugi með hjálp söngvara sem taka franska slagara við undirleik af skemmtara á sunnudagseftirmiðdögum. Ótrúlegar jólaskreytingar allt árið um kring. Gott að borða (t.d. kræklinga) eða bara fá sér eitt vínglas, bjór eða kaffi eftir að hádegistörninni er lokið. Til að finna staðinn er best að spyrja til vegar, en hann er inni á Marché Vernaison, sem er mjög skemmtilegt svæði í þröngum götum.

Blóma- og fuglamarkaðurinn
Place L. Lépine, Ile de la Cité (Cité-eyjan)
75004 Paris
Metró : Cité eða Châtelet
Alger töfrastaður á litlu torgi skammt frá Notre Dame. Þarna fást alls konar skemmtilegir skrautmunir í garðinn, töluvert af jólaskrauti og mikið úrval af fræjum líka, fyrir íslenska garðálfa. Blóm, fræ og garðvörur alla daga vikunnar nema mánudaga, fuglar á sunnudögum.
Góðar garðbúðir má líka finna við Signubakka, á hægri bakkanum, milli Hotel de Ville og Pont neuf: Quai de Gesvres og Quai de la Mégisserie.

Skautahöll er opin allan ársins hring í nýuppgerðu íþróttahúsi í Art déco-stíl. Þar eru einnig sundlaug og líkamsræktarstöð:
Espace sportif Pailleron 32, rue Edouard Pailleron, 19. hverfi.
Metró: Bolivar (7bis ) eða Jean Jaurès (2, 5)
Sími: 01 40 40 27 70
Opið:
má, þri, fim: 12-13:30 og 16-22
mið: 12-22, lau: 12-24, sun: 10-18.
Í skólafríum (í vetrarfríum, jól og páska og á sumrin):
má, þri, mið, fim: 12-22, fös, lau: 12-24, sun: 10-18.
Fullt verð: 4,40€, leiga á skautum: 3,20€.

Skoða París með venjulegan metró/strætómiða að vopni:
Það getur verið spennandi að taka strætisvagn út í bláinn, hver veit hvert hann fer með ykkur? Og ef þið sjáið eitthvað markvert, er alltaf hægt að stökkva út. Munið bara að það er mun ódýrara að kaupa miðana á metróstöð eða í tabac-tóbaksbúð, heldur en beint af strætisvagnabílstjóranum. Það má skipta um vagn einu sinni á sama miða, en ekki má taka aftur sama vagn á sama miða, það telst svindl.
Hér er slóð með ýmsum upplýsingum um samgöngur í París.

Paris City Vision
Bus terminal
4, place des Pyramides
75001 Paris
s. 01.44.55.61.00
Metró : Palais Royal eða Pyramides
Bjóða upp á dagsferðir til Versala, Giverny (slóðir impressjónistanna, Monet-garðurinn), Mont Saint-Michel (eyja með klaustri við strendur Bretagne skagans) og margt fleira. Einnig skoðunarferðir um París. Yfirleitt bæklingur frá þeim í móttökum hótelanna.
https://www.pariscityvision.com/

Þetta er auðvitað bara örlítill hluti af því sem hægt er að skoða í París, hef t.d. ekki minnst á Latínuhverfið sem er nauðsynlegt að kíkja í (5. – 6. hverfi, metró: Saint Michel o.fl.), Champs Elysées (fegursta avenue í heiminum), Eiffel-turninn og margt margt fleira. Góða skemmtun!

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: