//
Orðalisti fyrir veitingahús

Þessi orðalisti er engan veginn tæmandi. Hann mun kannski stækka smátt og
smátt.
Í hornklofum aftast er reynt að sýna hvernig orðin eru borin fram, en ýmis hljóð úr frönskunni eru ekki til í íslenskunni svo ekki er víst að frönsku þjónarnir skilji ykkur alltaf þrátt fyrir miklar og erfiðar æfingar og utanbókarlærdóm. Aðalmálið er að vera kurteis og hógvær.
Ekki ráðast að þjónun og afgreiðslufólki með enskuna á lofti. Bjóðið fyrst GÓÐAN DAGINN, BONJOUR [bonsjúr] hátt og snjallt. Frakkar eru viðkvæmir fyrir því að vera ekki heilsað.
Svo getið þið byrjað á íslenskunni og spurt hægt og rólega hvort þeir tali ensku. Segið umfram allt að þið komið frá Íslandi. Það kemur betur út en að vera tekinn fyrir Þjóðverja eða Svía, að maður tali nú ekki um Breta eða Kana. Frakkar eru spenntir fyrir Íslendingum og óttast þá ekki.
Minnimáttarkenndin gagnvart enskunni er þó töluverð, og best er að tala ekkert allt of góða ensku við þá. Leyfa þeim að finnast þeir sjálfir betri. Virkar alltaf. Góða skemmtun !

Te og kaffi:
Un café= un espresso = eldsterkt kaffi í “fingurbjörg” [ön kaffi]
Une noisette = eldsterkur með dropa af mjólk útí [yn núasett]
Un allongé = þynnra kaffi í stærri bolla [ön allonsji]
Un pot de lait = mjólkurkanna [ön pó du le]
Un crème = sterkt kaffi með flóaðri mjólk til helminga [ön krem eða kaffi
latte]
Un thé = te [ön ti]
Une tisane eða une infusion = koffínlaust te [yn tisan eða yn enfusjón]
Un croissant = morgunhornin frægu [ön krúassan]

Drykkir:
Soda = gosdrykkur [sóda]
Coca, coca light = kók, diet kók [koka, koka læt]
Orangina = appelsín [oransjína]
Eau du robinet = kranavatn
Carafe d’eau = vatnskanna með kranavatni
Eau minérale plate = flatt flöskuvatn
Eau pétillante = sódavatn
Une bière = bjór [yn bjer]
Un demi = bókstafleg þýðing er hálfur bjór sem þýddi upphafl. hálfur lítri
en hefur þróast út í að vera hálfur hálfur lítri eða 25 cl. [ön dömí]
Une grande bière = hálfur lítri af bjór [yn grand bjer]
Reyndar reyna þeir oft að koma með hálfan lítra fyrir ferðamennina þegar
beðið er um demi og heilan þegar beðið er um grande, um að gera að benda á
matseðilinn til að vera viss um að skiljast.
vin rouge = rauðvín [ven rúsj]
vin blanc = hvítvín [ven blan]
coupe de champagne = kampavínsglas [kúp du sjampanj]
kir = hvítvín með smá sólberjalíkjör, vinsæll og góður fordrykkur [kýr]
Alcool = sterkir drykkir (vodka, gin…) [alko ol]
Digestifs = snafsar (koníak, armagnac ofl.) [dísjestíf]

Kjöttegundir:
Viande = kjöt [víand]
Viande haché = hakkað kjöt [víand ashji]
Viande en morceaux = kjöt í bitum [víand an morsó]
Agneau = lambakjöt [anjó]
Bœuf = nautakjöt [böff]
Veau = kálfakjöt [vó]
Porc = svínakjöt [por]
Poulet = kjúklingur [púle]
Canard = önd; magret de canard = andabringur (mæli með því) [kanar, magre du
kanar]
Poisson = fiskur [púasson] Athugið að flott þykir að bera fisk fram
heilsteiktan óhreinsaðan með höfðinu og roði.
Filet de poisson = flakaður fiskur [fíle du púasson]

Meðlæti:
Frites = franskar kartöflur (vitanlega belgískar að uppruna) [frít]
Pomme au four = bökuð kartafla [pom ó fúr]
Salade verte = salat, stundum tómatar með, en oft bara græn salatblöð [salad
vert]
Salade de tomates = tómatar og salatblöð [salad du tomat]
Légumes = soðið grænmeti [ligym]

Samlokutími:
Jambon = skinka [sjambon]
Fromage = ostur (og ekki búðingur!!) [frómasj]
Œuf = egg [öff]
Crudités = grænmeti [crydíti]
Mayonnaise = majónes (og borið þannig fram!)
Ketchup = tómatsósa [ketsjöpp]
Moutarde = sinnep, varúð sterkt! [mútard]
Croque Monsieur = bítt’í herrann = heit samloka með skinku og osti [krokk
mussju]
Croque Madame = bítt’í frúna = með spældu eggi yfir (hatturinn) [krokk
madam]
Croque poilâne = gróft sveitabrauð í stað venjulegs franskbrauðs [krokk
púalan]
Crêpe salée = pönnukaka með söltu áleggi s.s. skinku og osti [krep sali]

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: