//
Veitingahús

París skiptist í 20 hverfi (arrondissements) sem bera póstnúmerin 75001-75020. Þið getið lesið hverfisnúmerið út úr síðustu tveimur tölustöfum póstnúmersins. Í þessum lista er ekki raðað beint eftir hverfisnúmerum, heldur frekar eftir kjörnum (quartiers) sem hafa myndast í borginni og ná oft yfir hluta af fleiri en einu hverfi.
Ég hefði getað talið upp tugi staða í viðbót og mæli með því að fólk treysti eigin innsæi þegar það sér stað sem þeim líst vel á. Það er talinn góður mælikvarði að sjá hvort margir gestir eru á staðnum en Parísarbúar borða mun seinna en Íslendingar eiga að venjast, eða um átta-hálfníu, svo lítið er að marka fámenni þegar íslenskar garnir fara að gaula, upp úr sjö.
Fjallað er nánar um þjórfé annars staðar á síðunni, en minni á að það er engin skylda og alger óþarfi að gefa stórar upphæðir. Ef fólki langar til að gefa, er alveg nóg að reikna með um evru á manninn, kannski tveimur til þremur ef þið eruð mjög ánægð.

Ég set sjaldan inn verð þar sem þau breytast mjög ört, og oft er mikill verðmunur á réttum. Mjög sniðugt er að nýta sér formúlur sem margir staðir bjóða upp á og kallast MENU eða FORMULE. Þá velur maður einn forrétt, einn aðalrétt og stundum líka eftirrétt eða kaffi úr styttri matseðli og er oft hægt að gera góð kaup. Einnig má oft nýta sér hádegistilboð á dýrari stöðum borgarinnar.

LES HALLES – 1. OG 2. HVERFI

La Tavola Calda – facebook.com/pizzaleshalles/
39, rue des Bourdonnais
75001 Paris
s. 01.45.08.94.66
Metró: Châtelet (1,4,7 og 11)
Lítill, hræódýr og góður pizzustaður, rekinn af Portúgölum. Pizzubakarinn stendur og bakar við innganginn. Lítil terrasse (útisvæði) á góðviðrisdögum. Athugið að pizzurnar eru í ítölskum stíl, ekki amerískum eins og við eigum að venjast heima. Flestir torga auðveldlega heilli pizzu. Við vinirnir köllum þennan stað mötuneytið okkar.

Le louchebemhttp://www.le-louchebem.fr/
31, rue Berger
75001 Paris
s. 01 42 33 12 99
Metró: Les Halles
Dýrindis steikur eru aðalsmerki þessa veitingahúss sem hefur verið þarna síðan 1878. Nafnið vísar til slangurstungumáls sem slátrararnir á gamla matarmarkaðnum í París og í Lyon notuðu sín á milli til að kúnnarnir skildu þá ekki. Virkilega gott kjöt og fín verð. Þægilegt andrúmsloft, ekki of stíft.

The Frog and Rosbif
116, rue Saint Denis
75002 Paris
s. 01 42 36 34 73 – www.frogpubs.com
Metró: Etienne Marcel (4)
Breskur pöbb. Bjór bruggaður á staðnum. Ágætis pöbbamatur og fjörug stemning, sérstaklega þegar Bretar eru að keppa í rugby eða fótbolta. Þessi staður er sá fyrsti af fjórum í París.

L’Escargot
38, rue Montorgeuil
75002 Paris
s. 01 42 36 83 51 – http://escargotmontorgueil.com/
Frekar dýr og fínn staður sem hefur sérhæft sig í sniglum (nafnið þýðir einfaldlega Snigillinn). Alls konar annað góðgæti á boðstólum. Þessi gata, Rue Montorgeuil er líka alveg sérlega skemmtileg og lifandi bæði í hádeginu og svo frá aperó-tíma kl. 17 og fram eftir kvöldi. Fullt af börum og veitingahúsum.

La Poule au Pot
9, rue Vauvilliers
75001 Paris
s. 01.42.36.32.96. – http://www.lapouleaupot.fr/accueil_fr.htm
Metró: Louvre-Rivoli (1)
Frekar fínn franskur, frægur fyrir kjúklingapottréttinn sem staðurinn heitir eftir. Athugið: Tíð eigendaskipti undanfarið, hef ekki prófað eftir að nýir eigendur tóku við. OPIÐ ALLAN SÓLARHRINGINN.

MÝRIN – LE MARAIS – 4. HVERFI

Á daginn er upplagt að fá sér Fallafel-pítu á rue des Rosiers sem er aðal gyðingagatan. Persónulega finnst mér L’As du Fallafel vera bestur, hann er á nr. 34. Hann er einmitt sá frægasti og raðirnar á sunnudögum geta orðið ansi langar.
Annars er fullt af litlum, góðum veitingastöðum þarna í þessu líflega hverfi.

Chez Marianne
2, rue des Hospitalières Saint Gervais (á horninu við rue des Rosiers)
75004 Paris
s. 01.42.72.18.86
Metró: Saint Paul(1) eða Pont Marie (7)
Í hjarta gyðingahverfisins, frábærir smáréttir. Maður velur 6-12 rétti saman af löngum matseðli. T.d. tarama (léttur rjómakavíar), caviar d’aubergines (eggaldinmauk), hoummus (kjúklingabaunastappa) og margt fleira ljúfmeti. Gott verð, nauðsynlegt að panta á kvöldin.

Camille
24, rue des Francs Bourgeois 75004 Paris
s. 01.42.72.20.50
Metró: Saint Paul (1)
Ekta franskur staður, með hefðbundna rétti, hvíta þykka dúka og þjóna í hvítum skyrtum. Ágætt verð, í dýrari kantinum kannski.

Chez Janou
2, rue Roger Verlomme 75003 Paris
s. 01 42 72 28 41 –  http://chezjanou.com/
Metró: Bastille (1, 8, 9)
Ekta Parísarstaður, dálítið slitin borð og sjabbí innréttingar. Dásamlega góður matur innblásinn af Provence-héraðinu. Þessi staður er mikið sóttur af íbúum hverfisins og því betra að panta borð.

Les Marronniers
18, rue des Archives 75004 Paris
Metró: Hotel de Ville (1, 11)
Skemmtileg terrassa fyrir fordrykk, en einnig bæði vel útilátin salöt og svo djúsí góðir hamborgarar bornir fram með heimagerðum frönskum. Fallega innréttaður salur á efri hæð, ef ekki er pláss eða veður fyrir terrössuna. Afar gay-friendly staður, eins og flestir staðirnir í þessari skemmtilegu götu.

Place du Marché Sainte Catherine
Lítið vel falið torg sem er þéttsetið skemmtilegum og góðum veitingastöðum. Mjög góð stemning á kvöldin í góðu veðri. Flestir staðirnir eru bara dæmigerðir franskir smástaðir, ágæt verð, nefni einn sem ég hef prófað og stóð undir væntingum:

Le Marché
2, place du Marché Sainte Catherine 75004 Paris
s. 01 42 77 34 88 – http://www.restaurantlemarcheparis.com/
Hefbundinn matseðill, ekki mikið úrval en ferskur og góður matur. Þægileg þjónusta, sanngjarnt verð.

LATÍNUHVERFIÐ OG SAINT GERMAIN DES PRÈS – 5. OG 6. HVERFI

Þó að Parísarbúar segi Latínuhverfið hafa horfið undir túrisma og skyndibitastaði, hafa ekki allir gefið hverfið upp á bátinn og enn er góð stemning og hægt að finna ekta Parísarbúa í bland við ferðamennina. Hverfið er morandi í veitingahúsum og hér má aftur treysta eigin innsæi þegar staður er valinn.

L’Écritoire
3, place de la Sorbonne 75005 Paris
Metró: Cluny-La Sorbonne (10) eða Odéon (4 og 10)
Á torginu við aðalbyggingu Sorbonne háskóla er þetta kaffi- og veitingahús töluvert sótt af starfsfólki háskólans. Mjög dæmigerður franskur matur.

Le Coupe Chou
11, rue de Lanneau 75005 Paris
s.  01 46 33 68 69 – https://www.lecoupechou.com/
Einn af þessum sígildu Latínuhverfisstöðum, sem bæði íbúar og ferðalangar heimsækja. Stór og hentar því einnig hópum.

The Frog and Princess
9, rue Princesse 75006 Paris
s. 01.40.51.77.38 – www.frogpubs.com
Metró: Mabillon (10)
Annar staðurinn af þremur í keðjunni. Sjá í kaflanum um Les Halles. Annars er uppalegri stemning hér, enda fínna hverfi.

RÉPUBLIQUE – CANAL SAINT MARTIN – 10. HVERFI

Við skipaskurðinn sem nánast eins og fyrir galdra kemur upp á yfirborðið inni í miðri París, en hann er niðurgrafinn frá Signu og upp í 10. hverfi, hefur orðið mikil uppbygging undanfarin ár. Gamalt iðnaðarsvæði er nú smátt og smátt að breytast í uppahverfi með tilheyrandi hönnunarbúðum og sætum veitingahúsum, sem vert er að prófa.

Sol Semilla
23, rue des Vinaigriers 75010 Paris
Metró: Jacques Bonsergent eða République
Ekki hægt að panta – opið kl. 12-16 og þrjú kvöld í viku fim-fös-lau.
http://www.sol-semilla.fr
Alls konar orkudrykkir, ofursúpur og furðubrauð. Alger perla sem hentar eingöngu fyrir þá sem vilja rétttrúnaðar grænmetisfæði (engar dýraafurðir) og sætta sig við að sitja á tunnu með engu baki, jafnvel þröngt. Ég fæ mér oftast formúluna, 22€ sem er súpa eða drykkur, réttur dagsins (stór diskur með alls konar gúmmulaði, baunaréttir, grjón, salat og mauk) og svo örlítill eftirréttur. Á staðnum er hægt að kaupa kakó, spirulina, chaiduft, súpuduft og fleira dýrt eðalstöff, enda engin manneskja misnotuð í ferlinu frá uppskeru og til kaupanda! Yndislegur staður rekinn af hugsjón og kærleika.

Le verre volé
67, rue de Lancry 75010 Paris
s. 01 48 03 17 34 – http://www.leverrevole.fr/
Metró: Jacques Bonsergent eða République
Vínbúð sem er þó einnig bístró. Slök stemning, engir dúkar eða formlegheit, en mjög góður og ferskur matur og alveg ekta Parísarstemning. Mjög gott vínúrval, nema hvað, og verð sanngjarnt.

OBERKAMPF-HVERFIÐ – 11. HVERFI

Oberkampf gatan (“þorstagatan”) er þéttsetin ágætum veitingastöðum og börum. Alveg hægt að treysta eigin dómgreind.

Café Charbon – https://www.lecafecharbon.fr/
109, rue Oberkampf 75011 Paris
Vel varðveitt aldagamalt og fallegt kaffihús, sem einhvern veginn minnir mig alltaf á gamla góða Hressó, þótt það sé töluvert hærra til lofts og skrautlegra. Fastakúnnar og túristar í bland, mikil barstemning á kvöldin.

Cannibale Café
93, rue Jean-Pierre Timbaud 75011 Paris
s. 01.49.29.95.59 – http://www.cannibalecafe.com/
Metró : Couronnes (2)
Gamall og góður staður, einn af þeim sem kom hverfinu á kortið sem næturlífshverfi. Hingað leita ungir listamenn og aðrir bóhemar. Innréttingarnar eru sambland af ýmsu dóti sem fundist hefur á flóamarkaðnum. Málningin gulnuð og gólfin slitin. Vinaleg stemning. Oft lifandi tónlist eða plötusnúðar á kvöldin.

BASTILLU-HVERFIÐ 4. og 11. HVERFI

Roquette og Lappe göturnar eru þéttsetnar börum og veitingahúsum. Mikið fjör þar á kvöldin og yfirleitt meira lagt upp úr innréttingum og kokkteilum en matargerð. Perlur leynast þó á milli og hér eru tvær:

Chez Paul
13, rue de Charonne (alveg í endanum á rue de Lappe)
75011 Paris
s. 01.47.00.34.57
Metró: Bastille (1, 5 og 8)
Ekta franskur matur, mjög góður. Afar vinsæll staður í Bastillu-hverfinu og því nauðsynlegt að panta borð. Hann hefur stækkað og dafnað í gegnum árin, en heldur alltaf sömu gæðum. Matseðillinn er handskrifaður og frekar illlæsilegur, eingöngu á frönsku. Það er því nauðsynlegt fyrir ótalandi að fá aðstoð við að velja. Ég get hiklaust mælt með nautasteik með bernaisesósu eða confit de canard, andalæri niðursoðnu í andafitu (sem er búið að láta drjúpa af áður en framreitt, mjúkt kjöt og afar gott bragð). Frábærir desertar, þetta er staðurinn til að prófa profiteroles, sem eru vatnsdeigsbollur fylltar með ís og heit súkkulaðisósa yfir. Í dýrari kantinum, en engin vörusvik.

Les Sans Culottes –  https://www.bistrotlessansculottes.fr/
27, rue de Lappe
75011 Paris
s. 01.48.05.42.92
Metró: Bastille (1, 5 og 8)
Nafnið vísar í byltinguna, og þýðir „þeir sem eru ekki í nærbuxum“ en það voru byltingarsinnarnir sem voru ekki í blúndunærbuxum og silkisokkum eins og aristókratarnir. Fínn staður fyrir þá sem vilja borða góðan mat á sanngjörnu verði og komast á bar á eftir.

HINUM MEGIN ( Í 4. HVERFI) VIÐ BASTILLUNA ER EINN AF STÓRU FÍNU BRASSERÍUNUM Í PARÍS:

Brasserie Bofinger
3, rue Bastille
75004 Paris
s. 01 42 72 87 82
Metró: Bastille (1, 5 og 8)
Eitt af frægu brasseríunum sem eru nú í eigu FLO-samsteypunnar. Í dýrari kantinum, en vel þess virði ef maður þolir klið og læti sem fylgja brasserí-stöðunum. Dýrindis steikur og sjávarréttir. Gómsæt lauksúpa. Góð þjónusta.

BELLEVILLE – 19. og 20. HVERFI

Les bols d’Antoine
10, rue des Envierges 75020 Paris
s. 0699183952 – https://lesbolsdantoine.fr/en
Á toppi hæðarinnar (Mésnilmontant), með útsýni yfir alla París. Lítill staður, algerlega vegan. Alls konar blandaðar skálar með káli, korni, salati og baunum. Þjónustan er sæmilega hryssingsleg en verðið gott (réttur dagsins er á 10€ í okt 2022) og bragðið líka. Mögulega frekar svona léttur hádegisverðarstaður.

BERCY VILLAGE OG GARE DE LYON – 12. HVERFI

Bercy þorpið er glænýtt hverfi sem byggt var upp úr gömlu víngeymslum Parísar. Þarna er stór og fallegur almenningsgarður, og í Cour Saint Émilion eru veitingahús og gjafavöruverslanir. Sannkölluð Disney stemning í þessu nýja gamaldags umhverfi. Á góðviðriskvöldi líður jafnvel Parísarbúum eins og þeir séu komnir á sumarleyfisdvalarstað.

The Frog at Bercy Village
25, cour Saint Emilion 75012 Paris
s. 01 43 40 70 71 – www.frogpubs.com
Metró: Cour Saint Émilion (14)
Eins og á þessum á rue Saint Denis í Les Halles, er góð stemning og fínn pöbbamatur á boðstólnum.

Hverfið í kringum Gare de Lyon er kannski ekki það skemmtilegasta í bænum, en þaðan er stutt að komast upp á Bastille til að skemmta sér, eftir vel heppnaða máltíð á

Le Train bleu
20 bd Diderot 75012 Paris
s. 01 43 43 09 06 – www.le-train-bleu.com
Sögufrægur staður, óbreyttur frá opnuninni í tengslum við heimssýninguna um aldamótin 1900. Er á þjóðminjaskrá og var endurgerður í árslok 2014. Góður matur, óaðfinnanleg þjónusta. Frekar dýr og dálítið sterk birta þarna inni sem fælir suma frá.

BIBLIOTHÈQUE (BÓKASAFNIÐ) – 13. HVERFI

Þetta hverfi er loksins að komast í gagnið eftir miklar framkvæmdir í tengslum við byggingu stóru þjóðarbókhlöðunnar (4 L-laga turnar). Þarna spretta upp nýir staðir, stórt kvikmyndahús og getur verið góð stemning þarna á eftirmiðdögum og fram á kvöld. Ég þekki þetta hverfi mjög lítið þegar þetta er ritað, en Froskurinn hefur opnað útibú þarna:

The Frog & British Library
113, avenue de France 75013 Paris
s. +33 1 45 84 34 26 – www.frogpubs.com
Metró : Bibliothèque (14)
Þessi er víst mjög glæsilegur, leðursófar og tvær stórar terrössur. Frumlegur matseðill. Sjá annars umfjöllun í kaflanum um Les Halles.

MONTPARNASSE-HVERFIРÁ MÓTUM 6. OG 14. HVERFIS

Listamannahverfi millistríðsáranna. Barirnir eru í amerískum stíl, þ.e. sérhæfa sig í kokkteilum. Þarna voru Hemingway o.fl. á fullu í skemmtanalífinu.

La Coupole
102, bd de Montparnasse 75014 Paris
s. +33 1 43 20 14 20 – lacoupole-paris.com
Metró: Montparnasse-Bienvenue (4, 6, 12 og 13)
Sögufrægur staður sem margir Íslendingar heimsækja með nostalgíu í hjarta. Misjafnar sögur fara af gæðum matarins í dag, en staðurinn er eins og flest brasseríin kominn í eigu stórfyrirtækis og hætt við að örbylgjuofninn hafi tekið við af koparpottunum. En stemningin er engri lík og um að gera að láta eftir sér að koma þangað, ef þráin er raunveruleg.

La Rotonde
105, bd de Montparnasse 75006 Paris
s. +33 1 43 26 48 26 – www.rotondemontparnasse.com/
Metró: Montparnasse-Bienvenue (4, 6, 12 og 13)
Var stofnaður af yfirþjóni sem var rekinn frá ofangreindum La Coupole og er mjög svipaður, en á Rotonde er betri þjónusta, betri matur og rólegri stemning.

Le Select
99, bd de Montparnasse 75006 Paris
s. +33 1 45 48 38 24
Metró: Montparnasse-Bienvenue (4, 6, 12 og 13)
Megas söng: „Sæmi fróði situr í Frans á Select og drekkur vin rouge.“
Gamli góði Íslendingastaðurinn sem er því miður orðinn allt of dýr til að vera stefnumótastaður námsmanna í dag. Samt er gaman að koma þangað í kaffi eða drykk og maturinn er líka fínn.

La Closerie des Lilas
171, bd de Montparnasse 75006 Paris
s. +33 1 40 51 34 50 www.closeriedeslilas.fr
Metró: Raspail (4, 6) eða Port Royal (RER B)
Sá allra flottasti af gömlu sögufrægu Montparnasse-stöðunum. Aðeins út úr hringiðunni, fokdýr. Hægt að koma eftir kvöldverð og fá sér bara drykk og njóta píanótóna og upplifa elítustemninguna. Aðalréttir kosta í kringum 40 til 50 evrur.

MONTMARTRE – PIGALLE: Á MÓTUM 9. OG 18. HVERFIS

Corso
10, avenue Trudaine 75009 Paris
s. +33 1 48 78 55 81 – www.corsoparis.fr
Metró: Anvers (2)
Það eru reyndar þrír Corso í París, en ég hef bara borðað á þessum í 9. hverfi. Góður og ljúfur ítalskur matur, ekki mjög langur matseðill og sanngjarnt verð. Smokkfiskurinn var afar ljúffengur og bruchetturnar líka. Hamborgarinn fékk og bestu einkunn.

Í sjálfu fjallinu, Montmartre, sem er eitt mest sótta ferðamannasvæði borgarinnar getur verið vandasamt að lenda ekki í túristagildru, þó eru nokkrar perlur inn á milli.

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: