//
Söfn

SÖFN Í PARÍS

Safnferðir eru alls ekki skylda þegar París er heimsótt. Það getur verið mjög gaman að fara á söfn, en það er líka erfitt og slítandi og sumt fólk nýtur þess sjaldan.
París er iðandi af lífi og fjöri og stundum er nóg að sitja bara á gangstéttarkaffihúsi eða á bekk í garði og horfa og hlusta til að fá dágóðan skammt af menningu og furðulegheitum. En hér er þó yfirlit yfir þó nokkuð af söfnum sem hægt er að heimsækja í París. Listinn er þó engan veginn tæmandi og sífellt er verið að bæta á hann.
Ég er með leiðsögumannaréttindi og get því boðið upp á safnaleiðsögn, sé þess óskað. Ég tek fram að ég er ekki listfræðingur og kafa því ekki djúpt í stök verk. Ég er þó ágætlega kunnug söfnum eins og t.d. Louvre og Orsay og get a.m.k. sparað fólki stressið sem fylgir því að rata þar um, með miða sem gefur okkur forgang inn.

Ríkislistasöfnunum er annars vegar skipt niður í tíma og hins vegar í þemu: Louvre hefur umsjá með listaverkaeign franska ríkisins frá fornöld til 1840. Orsay er svo með 1840 til 1914 og Pompidou-safnið sér um 20. öldina. Að auki er Cluny-safnið lítið og skemmtilegt miðaldasafn og Quai Branly sýnir frumbyggjalist, en Vísindasöfnin eru vitanlega helguð vísindum og uppgötvunum. Herminjasafnið, Musée de l’armée, er sér stofnun, rekin af hernum og svo er Skreytilista- og hönnunarsafnið, MAD hýst í Louvre byggingunni en með sérinngangi og gilda ekki sömu aðgöngumiðar og á Louvre.
Ríkið á og rekur einnig ýmis einkasöfn listamanna, s.s. Rodin-safnið.

Langflest safnanna bjóða upp á að kaupa miða fyrirfram, en í raun eru raðirnar erfiðastar á Louvre, Orsay og Pompidou. Smærri söfnin eru yfirleitt mun minna sótt og oftast hægt að skella sér án þess að hafa skipulagt það fyrirfram.

Louvre safnið – Metró: Palais Royal – lokað á þriðjudögum
Eitt af stærstu söfnum heims. Þarna býr Mona Lisa ásamt mörgum frægum endurreisnarlistaverkum, frábær egypsk deild þar sem sjá má múmíu og margt fleira. Glerpýramídinn er aðalinngangurinn, raðirnar eru langar, en ganga alltaf mjög hratt og vel fyrir sig.
Hægt er að fara inn frá rue de Rivoli (það eru rauð tjöld yfir innganginum) og koma inn í Carroussel du Louvre. Þar er svo hægt að kaupa miða í sjálfsölum og röðin er oftast mun styttri.
Einnig er hægt að kaupa miðann fyrirfram, þá er farið að pýramídanum, inn um sérinngang fyrir þau sem eru með miða, sem er til hliðar við röðina fyrir þau miðalausu.
Louvre er mest sótta safnið í París og yfirþyrmandi stórt. Ef fólk er hikandi, mæli ég frekar með smærri söfnunum, t.d. Orsay (sjá hér neðar). Það er samt vel þess virði að sjá bygginguna að utan, pýramídann og garðana og vissulega er skemmtilegt að fara og heilsa upp á Monu Lisu!
Á Louvre er eitt íslenskt verk til sýnis núna, altarisklæði frá Grenjaðarstað. Það er staðsett í Richelieu-álmunni, á 1. hæð í sal númer 503. Hér er hlekkur á gripinn í skrá Louvre-safnsins. Athugið að verkið verður lánað til Þjóðminjasafnsins í Reykjavík í nóvember 2023, í þrjá mánuði.
http://www.louvre.fr

Orsay safnið – Metró: Solférino – lokað á mánudögum
Gömul lestarstöð sem var breytt í fínt safn sem sýnir listaverkaeign franska ríkisins fyrir tímabilið 1840 til 1914. Þarna eru impressjónistarnir Van Gogh (t.d. sjálfsmyndin og herbergið hans), Manet, Degas, Gauguin, Renoir o.fl. Dásamlega fallegt og vel uppsett safn og flestir þekkja einhver verk, eftirprentanir hanga enn iðulega uppi í heimahúsum á Íslandi.
Röðin getur verið löng og gengur hægt fyrir sig. Ég mæli eindregið með því að kaupa vefmiða fyrirfram. Þeir eru ódagsettir og gilda í þrjá mánuði. Einnig er hægt að kaupa miða á upplýsingaskrifstofum á flugvöllunum og inni í borginni sem og í Fnac búðunum, sjá lista yfir allar búðir hér.
Og hér er opinber vefur safnsins: http://www.musee-orsay.fr/

Pompidou safnið – nútímalistasafnið – Metró: Hôtel de Ville – lokað á þriðjudögum
Mjög skemmtilegt menningarsetur, gott nútímalistasafn, framúrstefnulegt kaffihús með útsýni yfir alla París uppi á þaki, risastórt bókasafn, búð með nýlegri hönnun o.fl. Tímabundnu sýningarnar vekja iðulega mikla athygli. Safnið er opið til kl. 22 og Dalí-sýningin er opin til kl. 23 (miðasala lokar þó kl. 22). Mælt er með því að koma eftir kl. 19, þá eru færri gestir. Hægt er að kaupa miða fyrirfram.
https://www.centrepompidou.fr/

Orangerie safnið – Metró: Concorde – lokað á þriðjudögum
Orangerie er alger perla, en er þess vegna álíka vel sótt og stóru söfnin svo ég mæli eindregið með því að kaupa miðann fyrirfram. Þarna eru 8 risastóru vatnaliljuverkin hans Monets, sem hann málaði í lok ævi sinnar, orðinn hálfblindur og miður sín yfir heimsstyrjöldinni sem geisaði sem og yfir missi sonarins Jean, sem lést úr sjúkdómi 1914.
Svo eru þarna tvö einkasöfn listaverkasafnara sem mynda skemmtilegt yfirlit yfir gróskutímabilið í lok 19. og byrjun 20. aldar. Þetta er „krúttsafn“ sem er fullkomið fyrir þau sem vilja gera eitthvað smá menningarlegt án þess að eyða tíma og orku í of mikið.
http://www.musee-orangerie.fr/en

Musée de Cluny – Miðaldasafnið Metró: Cluny (eða Saint Michel) – lokað á þriðjudögum.
Mjög skemmtilegt, mátulega lítið og þægilegt safn. Brynjur, vopn og skildir, skart, vefnaður og vitanlega fullt, fullt af trúarlegri list. Frægasta verkið er Ungfrúin og einhyrningurinn, veggtjöld sem sýna samskipti ungrar dömu og einhyrnings nokkurs.
http://www.musee-moyenage.fr/

Vísindasafnið – Cité des Sciences et de l’Industrie Metró: Porte de la Villette – lokað á mánudögum.
Fyrir börn á öllum aldri. Margar skemmtilegar sýningar og þó allar útskýringar séu á frönsku, er hægt að fá heyrnatól með ensku tali. Þarna er líka kúlubíóið La Géode (lokað vegna viðgerða) og alvöru kafbátur sem hægt er að skoða að innan.
Villette-garðurinn, sem safnið stendur í, er líka vel heimsóknar virði, nútímalegur og skemmtilegur. Í honum leynist verk eftir Daniel Buren, fyrir þau sem þekkja svarthvítu skúlptúrana hans. Glöggir geta líka fundið risastórt reiðhjól sem er að mestu niðurgrafið. Þar eru og alls konar leiksvæði fyrir krakka, risarennibrautir, æfingasvæði fyrir Crossfit og oft mikið líf og fjör.
http://www.cite-sciences.fr

Herminjasafnið – Musée de l’armée Metró: Invalides – Opið alla daga
Risastórt safn byssa, brynja, búninga, medalía og fleiru sem tengist hernaðarbrölti Frakklands. Virkilega áhugavert safn og ekki eingöngu fyrir þá sem hafa brennandi áhuga á vopnum og slíku, brynjusafnið er t.d. afar tilkomumikið og flott. Hægt er að kaupa miða fyrirfam á netinu.
http://www.invalides.org

Quai Branly Metró: Alma-Marceau – Lokað á mánudögum
Ríkislistasafn sem geymir og sýnir safn verka frá því sem Vesturlandabúar kalla oft „hinn heiminn“. Sumsé skurðgoð, grímur, vopn og fleira úr tré og beinum, frá hinum ýmsu þjóðflokkum í Afríku, Ástralíu, N-Kanada o.s.frv. Byggingin sjálf, teiknuð af Jean Nouvel, er þess virði að skoða, en safnið er líka mjög skemmtilegt og sérlega barnvænt.
http://www.quaibranly.fr/

Rodin safnið Metró: Varenne eða Invalides – Lokað á mánudögum
Safn skúlptúra eftir Rodin, sem er frægastur fyrir „Hugsuðinn“ (Le penseur), sem er einmitt í garði safnsins. Þarna eru einnig verk eftir aðra samferðamenn Rodins, m.a. Camille Claudel sem var lærlingur hans og átti í ástarsambandi við hann.
Undurfalleg bygging og dásamlegir garðar þar sem hægt er að setjast niður í hressingu í testofunni.
http://www.musee-rodin.fr/en

Marmottan – Monet safnið Metró: La Muette – Lokað á mánudögum
Einstaklega skemmtilegt safn, sem er hýst í gamalli veiðihöll sem var stækkuð og breytt í listaverkasafn á 19. öld. Þarna er mikið af impressjónistaverkum, sem koma flest úr einkasöfnum sem hafa verið ánöfnuð ríkislistaháskólanum.
http://www.marmottan.fr/

MAD París – Hönnunar- og tískusafnið, (áður Musée des arts décoratifs) – Metró: Palais Royal – Lokað á mánudögum
Safn af húsgögnum og öðrum munum sem tengjast skreytilistasögunni og er í Louvre höllinni, en með sérinngangi á 107, rue de Rivoli. Afskaplega fallegt og skemmtilegt safn. Safnið á einnig ógrynni af textíl og búningum, en sá hluti er eingöngu sýnt á sérsýningum, oftast tvisvar á ári.
– Undir MAD heyrir einnig Musée Nissim de Camondo, metró Villiers – lokað mán og þri
Þarna bjó hin vellauðugi Moïse de Camondo í vellystingum og sankaði að sér munum frá eftirlætis tímabilinu sínu, 18. öldinni. Höllin sjálf er að hluta til eftirlíking af Petit Trianon höllinni í Versölum, en gerir þó ráð fyrir nútímaþægindum aldamóta 19. og 20. aldar. Þarna má sjá ýmsa stórmerkilega gripi eins og skrifborð Marie Antoinette og fleira. Einnig er gaman að skoða eldhúsið, baðherbergin og annað sem gefur góða innsýn í líf iðnjöfra og ríkisbubba þessa tíma.
Fjölskyldusagan er og markverð, Moïse bjó lengst af einn með börnum sínum, Nissim og Béatrice, því eiginkonan, Irène Cahen d’Anvers, fór frá honum. Sonurinn Nissim féll í fyrri heimsstyrjöldinni og jafnaði faðirinn sig aldrei á því. Hann arfleiddi MAD að megninu af eignum sínum, en hann lést 1935. 10 árum síðar, í seinni heimsstyrjöldinni, var svo dóttir hans Béatrice og öll hennar fjölskylda flutt í útrýmingarbúðir og ekkert þeirra lifði það af.
Vefur safnanna: http://madparis.fr

Grand Palais – Metró: Grand Palais.
Stóra byggingin frá aldamótunum 1900 sem hýsti m.a. Íslandssýninguna haustið 2004. Þarna eru sýningarsalir fyrir tímabundnar sýningar, sem hafa verið mjög vel sóttar, enda oft markverðar.
https://www.grandpalais.fr/en

Grand Palais hýsir þess utan vísindasafn ætlað börnum Palais de la découverte. http://www.palais-decouverte.fr, inngangurinn er þó ekki sá sami, heldur baka til.

Þessi upptalning er engan veginn tæmandi, söfnin í París eru óteljandi. Í kaflanum ókeypis í París, má til dæmis finna nokkur söfn í viðbót. Einnig getur verið gaman að þræða litlu sölugalleríin, í Mýrinni (4. hverfi) eða á Saint Germain des Près (6. hverfi).

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: