//
Ókeypis í París

París er ein af dýrustu borgum í heimi. Hér kostar kaffibolli á vel staðsettu gangstéttarkaffihúsi meira en á Íslandi, veitingahúsin hafa hækkað verðin töluvert undanfarið og það getur fljótt orðið tiltölulega dýrt að flakka um borgina marga daga í röð. Sumt fólk er snillingar í því að lifa sparlega og felst ákveðin list í því að ná að ferðast mikið án þess að steypa sér í skuldir.
Ýmislegt er hægt að gera í París án þess að greiða fyrir það.

Sannur Parísarbúi kann þá list að flangsa, flâner. Það kostar nákvæmlega ekki neitt að ráfa um göturnar, horfa á mannlífiið og glápa inn í búðirnar. Það kostar ekki krónu að setjast á bekk og stara út í loftið, upplifa stressið og lætin í kringum sig en vera eins og rónarnir eða ljóðskáldin, utan við þetta allt saman.
Að hanga í Luxembourgargarðinum, í Tuileries hallargarðinum, Buttes Chaumont eða hvaða Parísargarði sem er, getur verið ágæt upplifun á góðum degi. Ekki má gleyma því að fæstir borgarbúa hafa eigin garð eða svalir og algengt er að fólk fari í almenningsgarðinn sinn oft í viku, barnafólk jafnvel daglega. Því er mun meira líf og fjör í görðunum hér en t.d. í Hljómskálagarðinum í Reykjavík.
Allar starfandi kirkjur er ókeypis að koma inn í og þótt ekki vilji allir leggjast á bæn eru byggingarnar oft listasmíð og fullar af málverkum og steindum gluggum sem hægt er að njóta burtséð frá trúarskoðunum.
Ýmislegt fleira hef ég tínt til sem hægt er að gera ókeypis í París. Hér kemur listinn:

Flest stóru safnanna, s.s. Louvre og Orsay, bjóða ókeypis aðgang fyrsta sunnudag í hverjum mánuði.

Aðgangur í nokkur söfn í eigu borgarinnar er ókeypis, en athugið að iðulega eru tímabundnar sýningar í hliðarsölum, sem selt er inn á. Það er þó engin skylda að borga sig inn á þær sýningar, nóg að segjast bara vilja sjá safnið.

Musée Carnavalet
rue Sévigné
75004 París
metró: Saint Paul (1)
carnavalet.paris.fr
Sögusafn Parísar. Flott líkan af eyjunni Cité (Notre Dame) eins og hún leit út um 1530. Fín byltingadeild, ýmsir skemmtilegir munir og myndir frá því blóðuga tímabili. Nokkrar góðar loftmyndir af borginni frá fyrri öldum (vitanlega málverk).
Þetta safn er þó aðallega fyrir mikla áhugamenn um skreytingar og húsbúnað í  París í gegnum aldirnar. ATHUGIÐ AÐ SAFNIÐ ER LOKAÐ FRAM TIL ÁRSLOKA 2019.

Pavillon de l’Arsenal
21, bd Morland
75004 Paris
metró: Sully-Morland (7)
Opið þri-lau 10.30-18.30, su 11-19.
http://www.pavillon-arsenal.com/home.php
Tileinkað borgarskipulagi, Loftmynd af París í gólfinu og ýmsar myndir sem sýna þróun borgarinnar og framtíðarhugmyndir. Aðallega fyrir arkitekta og umhverfisáhugafólk, en mjög skemmtilegt fyrir alla sem hafa áhuga á borgarskipulagi, sem er mikið í umræðunni í Reykjavík nútímans.

Maison du Balzac
47, rue Raynouard
75016 Paris
Opið 10-18, þri-su.
Maisondebalzac.paris.fr
Heimili rithöfundarins í litlu húsi með garði í útjaðri borgarinnar.

Maison de Victor Hugo
place des Vosges
75004 Paris
Opið 10-18, þri-su.
metró: Saint Paul (1) eða Bastille (1, 5, 8)
http://www.maisonsvictorhugo.paris.fr/
Heimili rithöfundarins í einni af fínustu höllunum í Mýrinni. Í þessari íbúð skrifaði Hugo megnið af sínu frægasta verki, Vesalingarnir (Les Misérables).

Musée Cognacq-Jay
8 rue Elzévir
75003 Paris
Opið 10-18, þri-su.
metró: Saint Paul (1)
cognacq-jay.paris.fr
Einkasafn hjónanna Ernest Cognacq og Marie-Louise Jay. Þau stofnuðu vöruhúsið Samaritaine (sem er nú lokað) og söfnuðu listaverkum á árunum 1900-1925 sem þau gáfu svo Parísarborg. Auk margra merkilegra listaverka sést vel hvernig ríkt fólk bjó á þessum árum.

Musée Zadkine
100 bis, rue d’Assas
75006 Paris
metró: Notre-Dame des Champs (12)
Hús og vinnustofa listmálaranna Ossip Zadkine og Valérie Prax sem Valérie ánafnaði borginni að ósk eiginmannsins. Mjög skemmtilegt leynisafn, og oft góðar tímabundnar sýningar á nútímalist.
zadkine.paris.fr

Musée Cernuschi, musée des arts de l’Asie de la Ville de Paris
7 avenue Vélasquez
75008 Paris
Opið 10-18, þri-su.
metró: Monceau (2)
cernuschi.paris.fr
Elsta safnið í eigu borgarinnar, opnað 1898. Annað stærsta Asíulistasafn í Frakklandi og fimmta stærsta kínverska listasafn Evrópu.
Eftir heimsóknina er upplagt að skoða Monceau garðinn sem er í enskum 19. aldar stíl og vel sóttur af íbúum 8. hverfis en minna af ferðamönnum.

MAM de Paris, Musée de l’art moderne

Ókeypis útsýnisstaðir:

Vissulega snýst ferð upp í Eiffelturninn ekki eingöngu um útsýnið, heldur líka upplifunina af þessari 225 ára gömlu byggingu. En fyrir þá sem geta látið sér nægja að horfa á hann neðan frá, eru ýmsir staðir í borginni sem bjóða fallegt útsýni.

Institut du Monde Arabe (arabíska menningarsetrið)
1, rue des Fossés Saint-Bernard
Place Mohammed V
75005 Paris
metró: Jussieu(7, 10) eða Cardinal Lemoine (10)
http://www.imarabe.org/
Fara inn um aðalinngang og taka lyftu upp á efstu hæð. Þar eru stórar svalir með skemmtilegu útsýni yfir á Notre Dame kirkjuna.
Annars er þetta skemmtilega safn og menningarsetur alveg heimsóknarinnar virði, húsið er teiknað af stjörnuarkitektinum Jean Nouvel og sýningarnar yfirleitt mjög vandaðar en vitanlega er aðgangseyrir á þær.

Pompidou safnið
Place du Beaubourg
75004 Paris
metró: Beaubourg (11) eða Hotel de Ville (1, 11).
Fara í lyftuna vinstra megin við aðalinnganginn (gulir fánar), merkt GEORGES. Segja dyraverðinum þar að maður ætli á veitingahúsið. Sú lyfta fer upp eina hæð, þá er skipt um lyftu sem fer alla leið á toppinn, eða farið yfir í rúllustigana. Þar er veitingahúsið Georges en ekki er skylda að borða þar eða drekka heldur getur maður bara rölt um efstu glertúbuna og séð yfir borgina. Svo er hægt að fara niður í rúllustigunum og skoða í búðina o.fl. í aðalinnganginum sem og kaupa miða á safnið sé áhugi fyrir því.

BHV
52, rue de Rivoli
75004 Paris
metró Hotel de Ville (1, 11)
Fara upp á efstu hæð í vöruhúsinu og út á svalirnar, skemmtilegt útsýni á þak ráðhússins (Hotel de Ville er sem sagt ráðhús Parísar, ekki hótel!).

Galeries Lafayette
40, bd Haussmann
75009 Paris
Metró: Chaussée d’Antin (7, 9) eða Opéra (3, 7, 8)
Fara upp á efstu hæð í aðalbyggingu vöruhússins (muna að skoða líka glerkúpulinn í miðjunni) og út á svalirnar, skemmtilegt útsýni á þak gömlu óperunnar.

Parc de Belleville
75020 Paris
Metró: Pyrénées (11)
Útsýni yfir alla borgina úr þessum litla sérkennilega bratta garði  í skemmtilegu hverfi sem lítið er sótt af ferðamönnum og getur því verið gaman að uppgötva. Þessi garður er reyndar heimsóttur í Belleville-göngu minni, sjá nánar hér.

Montmartre hæðin
75018 Paris
Metró: Anvers (2) eða Abbesses (12)
Mjög fínt útsýni fyrir framan stóru hvítu kirkjuna, Sacré Cœur. Ég er einnig með gönguferð um þetta skemmtilega hverfi, sjá hér.

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: