//
Kvöld- og næturlíf

Afþreying á kvöldin og næturlíf

Ég mæli með því fyrir hugrakka og sérstaklega þá sem vilja finna tónleika og kvikmyndir, að kaupa Pariscope í næsta blaðsöluturni. Þar er allt um það hvað er að gerast í vikunni (frá miðvikudegi til þriðjudags). Bíó, leikhús, tónleikar o.s.frv. Bendi einnig á þessar netsíður : www.timeout.com (allt um 33 borgir á ensku) ogwww.pariscope.fr (á frönsku).

Til að nota Pariscope er gott að vita að dagarnir eru: Lundi=mánudagur, mardi=þriðjudagur, mercredi=fimmtudagur, jeudi=fimmtudagur, vendredi=föstudagur, samedi=laugardagur, dimanche=sunnudagur.

BÍÓ (cinéma): Um 300 kvikmyndir eru sýndar á viku í París. Hægt er að sjá ýmsa gamla gullmola í litlu kvikmyndahúsunum í Latínuhverfinu en allt það nýjasta er í stórum og vel útbúnum sölum t.d. í Les Halles, Odéon, Champs Elysées og á Montparnasse. Myndirnar eru yfirleitt bæði sýndar í version originale (VO) = á frummálinu (með frönskum texta) eða í version française (VF) = talsettar á frönsku.

TÓNLEIKAR (concerts): Helstu tónleikastaðirnir eru m.a. Olympia, Le Zénith, Bercy, Bataclan og Elysée Montmartre. Prógrömmin koma t.d. fram í Pariscope (sjá hér að ofan) í kaflanum concerts, og í miðasölunni (billetterie) í FNAC (www.fnac.com) á Rue de Rennes eða í Les Halles verslunarmiðstöðinni.

BARIR, kaffihús, bjórstofur … París er borg ljósanna og iðandi líf út um hana alla á kvöldin. Megnið af stöðunum eru þó ekki opnir nema til 2 eftir miðnætti, og margir (sérstaklega kaffihúsin) loka m.a.s. upp úr 23. Mörgum Íslendingum þykir þetta heldur stuttaralegt, en það er yfirleitt hægt að finna staði opna lengur í helstu miðbæjarkjörnunum. Best er að spyrja þjóninn á staðnum sem er að loka, þeir vita yfirleitt hvert er hægt að leita í áframhaldandi fjör.

Helstu kjarnarnir eru:

Latínuhverfið, litlu göturnar í kringum Saint Michel.

Bastillan, upp rue de la Roquette og inn rue de Lappe.

Oberkampf, með heitari “þorstagötum” Parísar í dag. Sú gata og göturnar út frá henni.

Montparnasse hverfið og Champs Elysées eru einnig alltaf iðandi af mannlífi.

LIFANDI TÓNLIST: Ýmsir barir bjóða upp á lifandi tónlist. Djassinn er vinsælastur, en ýmislegt annað er í boði. Hér eru nokkrir staðir:

Le Duc des Lombards 42, rue des Lombards, 75001 Paris. s. 01.42.33.22.88. Opið öll kvöld frá 19.30 til 2.00. Metró: Châtelet. Aðgangseyrir 16-20€.
Djassbúlla, þekkt fyrir mjög vandaða dagskrá. Í rue des Lombards eru fleiri djassbúllur: Le Sunset/Sunside á nr. 60, og Le Baiser Salé á nr. 58. Mjög lifandi og skemmtileg gata rétt hjá Les Halles.
http://www.ducdeslombards.com/

Caveau de la Huchette 5, rue de la Huchette, 75005 Paris. s. 01.43.26.65.05. Opið öll kvöld frá 21.30 til 4.00. Metró: Saint Michel. Aðgangseyrir 10-14€.
Þekktasta djassbúllan í Latínuhverfinu. Góð stemning í fallegum miðaldakjallara. Hægt að dansa.
http://www.caveaudelahuchette.fr/

La Bellevilloise 20, rue Boyer, 75020 París. Blandaður staður: Sýningar, veitingahús, tónleikar… Heitur staður í dag.http://www.labellevilloise.com/

Satellit Café 44, rue de la Folie Méricourt, 75011 París. Sjá nánar undir „Diskótek“ – Tónleikar þri, mið og fim.
http://www.satellit-cafe.com/public/accueil.tpl

Le Lapin Agile 22, rue des Saules, 75018 Paris. Opið alla daga nema mánudaga kl. 21.00-2.00. Metró: Lamarck-Caulaincourt.
Gamlir franskir slagarar í elsta kabarettinum á Montmartre-hæðinni. Hefur aldrei verið endurgerður, veggirnir svartir af reyk og minningum liðinna ára. Mikil og góð stemning.
http://www.au-lapin-agile.com/

DISKÓTEK – Næturklúbbar

Fyrir þá sem fylgja tískunni út í ystu æsar er gott að vita að nú þykja víst gömlu góðu diskótekin síðasta sort. Til að vita hvert á að fara í kvöld þarf að hlusta á rétta útvarpsþáttinn, lesa rétta blaðið, eða þekkja einhvern sem á undarlegan hátt veit alltaf allt. Plötusnúðar og skemmtanastjórar setja upp eins konar bráðabirgðadiskótek eitt og eitt kvöld hér og þar og tryggja þar með að engir lúserar mæti, eingöngu heitasta liðið með réttu tengingarnar! Eins konar borgarútgáfa af Rave-hátíðunum sem ógna margrómaðri sveitakyrrðinni nú á dögum.

Fyrir hina sem ekki nenna að taka þátt í þessum eilífðar eltingaleik eru þó nokkur staðföst og “venjuleg” diskótek þar sem oft myndast hin besta stemning. Nefni hér þrjú, en þau eru miklu fleiri:

Les Bains 7, rue du Bourg-l’Abbé, 75003 Paris. s. 01.48.87.01.80. Metró: Etienne Marcel. Opið öll kvöld fram á morgun.
Prinsessa diskótekanna frá hápunktinum á 7. áratugnum. Var alveg búið á tímabili, en nær reglulega inn aftur og ég þekki ýmsa sem hafa átt þarna skemmtileg kvöld í gegnum tíðina.
Nýlega var skipt um eigendur og nú er komið veitingahús á efri hæðina. Á föstudögum er lifandi tónlist undir matnum og á laugardagskvöldum er staðurinn með „samkynhneigt prógramm“ (hvað svo sem það þýðir).

Le Saint 7, rue Saint-Séverin, 75005 París. s. 01.43.25.20.04. Metró: Saint Michel. Opið kl. 23 til morguns. Lokað sunnudags- og mánudagskvöld. Fallegur miðaldakjallari í hjarta Latínuhverfisins, blönduð tónlist (house-disco-techno), gestir í yngri kantinum og mikið af amerískum námsmönnum á veturna.http://www.lesaintdisco.com/

Satellit Café 44, rue de la Folie-Méricourt, 75011 París. Metró: Parmentier eða Oberkampf. Opið þri-fim kl. 20-4, fös og lau kl. 22-6, lokað sun og mán.
Oft mjög óhefðbundin danstónlist (Tom Waits o.fl.) í bland við funk, salsa og djass. Þri – fim eru oft tónleikar í upphafi kvölds og þá tónlist hvaðanæva úr heiminum t.d. sígaunatónlist, afríkutrumbur, tangó eða ítalskur kórsöngur. Mjög skemmtilegur staður rétt við “þorstagötuna” Oberkampf. http://www.satellit-cafe.com/public/accueil.tpl

Kabarettar og kvöldverður á Signu

Rauða myllan – Le Moulin Rouge
82, boulevard de Clichy
75018 Paris
s. 01.53.09.82.82 – http://www.moulinrouge.fr/
Metró : Blanche
Stórkostleg kabarettsýning með hinum fræga Can Can-dansi. Fjaðrir og skraut, alvöru ballettdansmeyjar (berbrjósta), töframenn og grínarar. Snyrtilegur klæðnaður. Nauðsynlegt að panta. Ef ekki á að borða á staðnum, mæli ég heldur með seinni sýningunni því matargestirnir taka bestu sætin á þeirri fyrri.

Lídó – Le Lido
116bis, avenue des Champs Elysées
75008 Paris
s. 01.40.76.56.10 – www.lido.fr
fax 01.45.61.19.41
Metró: George V.
Mjög flott “eftirlíking” af Rauðu Myllunni. Snyrtilegur klæðnaður. Nauðsynlegt að panta.

Crazy Horse
12, avenue George V
75008 Paris – http://www.lecrazyhorseparis.com/
s.01.47.23.32.32
fax 01.47.23.48.26
Metró: George V
Miklu minni staður en Rauða Myllan og Lídó. Berbrjósta dansmeyjar, grínistar og kampavín. Enginn matur. Mjög skemmtilegur staður, erótískari en þessir stóru. Nauðsynlegt að panta.

Bateaux Parisiens – Sigling og málsverður á Signu
Port de La Bourdonnais (við rætur Eiffelturnsins)
75007 Paris
s. 01.44.11.33.55
Metró: Trocadéro eða Bir Hakeim
http://www.bateauxparisiens.com/

Verð miðast við staðsetningu í bát, ódýrast inni í miðjum bát, dýrara við glugga, dýrast í stefni. Snyrtilegur klæðnaður (ekki gallabuxur eða strigaskór). Nauðsynlegt að panta.

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: