//
Blessuð börnin

Að koma með börn til Parísar

Ég er mjög oft spurð hvort það sé ekki erfitt að koma með börn til Parísar. Ég viðurkenni að ég hafði sjálf efasemdir um að geta búið hér með börn en um leið og þau voru komin öðlaðist ég nýja sýn á borgina og nú finnst mér París tilvalin barnaborg.

Börn eru að vísu misjafnlega dugleg að ganga og misáhugasöm um sögu og listir. En fyrir þau óþolinmóðu er París troðfull af frábærum almenningsgörðum sem eru með alls konar klifrugrindur og leiktæki, bátsferðir, strætisvagnar með efri hæð, götulistamenn og ísbúðir út um allt. Og söfnin eru ekki öll jafn þunglamaleg og Louvre!

Það sem aðallega þarf að vera harður á: að þau hegði sér vel í umferðinni, stökkvi ekki til og frá á gangstéttarbrúninni og bíði alltaf eftir græna kallinum.
Þau þurfa að kunna símanúmer ykkar og helst vera merkt skriflega. Forðist að missa sjónar á þeim, ekki af því hér mori allt í barnaræningjum heldur vegna þess að í þvögu geta þau týnst algerlega á mjög skömmum tíma.

Það er um að gera að undirbúa þau vel, setjast niður og skoða myndir af byggingum og stöðum sem á að skoða, krakkar eru oft opnari ef þau kannast við að hafa heyrt um hluti áður. Tilvalið er að horfa á bíómyndir s.s. Hringjarann frá Notre Dame (0-99 ára) eða Amelíu (frá 12 ára). Svo er alger skylda að telja allar tröppur í ferðinni og halda bókhald. Parísardaman yrði glöð að fá slíkar tölur sendar, og mun þá birta þær á vefnum.

Hér mun ég telja upp ýmislegt skemmtilegt að gera með krökkum. Allar ábendingar frá ykkur eru meira en vel þegnar.

Barnvæn söfn:

Grasagarðurinn – náttúruminjasöfnin. Metró: Gare d’Austerlitz, Jussieu eða Censier Daubenton.
Þarna er hægt að eyða heilum degi. Þá kaupir maður einn miða fyrir allt svæðið. En það er líka hægt að fara bara í eitt safn eða fleiri, nú eða bara í dýragarðinn.
– Þróunarsafnið (Galerie de l’Évolution) þar sem eru uppstoppuð dýr, fílar, ljón, gíraffar, flóðhestar og alls konar villidýr.
– Steingervinga- og beinasafnið (Galeries de Paléontologie et d’anatomie comparée): beinagrindur af smæstu fuglum og allt upp í alvöru risaeðlur.
– Dýragarðurinn (La ménagerie): einn af elstu dýragörðum í heimi. Alls konar dýr og fuglar, mjög fallegur garður.
– Gróðurhúsin (Les serres): Nýuppgerð, frá 18. öld. Regnskógabeltisplöntur.
Garðurinn sjálfur er þess virði að skoða vel, bæði skrúðgarðurinn og grasagarðarnir. Á nokkrum stöðum eru róluvellir (aire de jeux)..
Vefsíða fyrir garðinn – Jardin des Plantes – eingöngu á frönsku.
Vefsíða fyrir söfnin: Muséum national d’histoire naturelle – á ensku. Athugið að á vefsíðunni er bent á söfn og staði sem tilheyra Náttúruminjastofnun Frakklands en eru ekki í Plöntugarðinum í París, ekki láta það rugla ykkur. Til dæmis er stóri dýragarðurinn (Zoo de Paris) lokaður og hefur verið það um árabil.

Quai Branly Metró: Alma-Marceau
Nýbyggt safn verka frá því sem Vesturlandabúar kalla oft „hinn heiminn“. Sumsé skurðgoð, grímur, vopn og fleira úr tré og beinum, frá hinum ýmsu þjóðflokkum í Afríku, Ástralíu, N-Kanada o.s.frv. Byggingin sjálf, teiknuð af Jean Nouvel, er þess virði að skoða, en safnið er líka mjög skemmtilegt og sérlega barnvænt. http://www.quaibranly.fr/

Musée de Cluny Metró: Cluny La Sorbonne eða Saint Michel.
Miðaldasafn. Þar sem miðaldalist og handverk var mjög tengt kirkjunni, er mest af trúarlegum gripum þarna. En þó er þar hið margfræga veggteppi Ungfrúin og einhyrningurinn (The Lady and the Unicorn) og eitthvað af brynjum og vopnum sem krökkum finnst mikið til koma (og líka mér!). http://www.musee-moyenage.fr/

La Villette- Cité des Sciences – Cité des enfants
Metró: Porte de la Villette eða Porte de Pantin.
Líkt og í Grasagarðinum, er alveg hægt að eyða heilum degi í Villette-garðinum. Vestan megin við skipaskurðinn sem sker garðinn í tvennt er stórt og mikið vísindasafn með alls konar upplýsingum um vísindauppgötvanir, stjörnuhvolf og ýmislegt fleira. Risastóra glerbyggingin hýsir vísindasafnið, bókasafn, skemmtilega dótabúð og cité des enfants, sem er bráðskemmtileg fyrir yngstu börnin. Þetta eru tvær leiðir (2-7 ára og 5-12 ára) sem börnin geta gengið með foreldrunum og prófað alls konar tæki og tól. Í garðinum er svo hægt að skoða kafbát (l’argonaute) að innan, fara í mergjað kúlubíó og uppgötva hvílíkt skemmtilega leikvelli (aire du dragon, jardin des vent et des dunes o.s.frv) og fara í hringekjur.

Austanmegin við skipaskurðinn (Porte de Pantin megin) er Cité de la Musique, heilmikið og fallegt hljóðfærasafn, le Zénith sem er tónleikahöll og La Grande Halle, risa járnvirki sem hýsti áður kjötmarkað borgarinnar en nýtist nú undir tímabundnar sýningar og viðburði.
Tilvalið er að vera með nesti og teppi á góðviðrisdegi í Villette. Mér finnst þetta eitt skemmtilegasta útivistarsvæði borgarinnar. Framúrstefnulegt en samt mjög notendavænt, mjög litrík stemning. Á sunnudögum hittast trumbuleikarar víðsvegar um garðinn og slá dáleiðandi takt fyrir vegfarendur. Gleymið ekki að leita uppi stóran skúlptúr, sem nánar er lýst hér.
Þið getið hlaðið niður korti hér, eða komið við í upplýsingum (information) á svæðinu sjálfu. http://www.villette.com/

Leikfangabúðir:

Village Jouéclub
3-5 boulevard des Italiens
75002 Paris
Þetta er 2000 m2 „þorp“, litlar, yfirbyggðar götur og sérbúðir eftir þemum: Lego, dúkkur, tölvuleikir, yngstu börnin o.s.frv.
Ekki endilega ódýrt, enda merkjavara oftast. En flott og mikið úrval.

La Grande Récré eru mjög vinsælar leikfangabúðir og oft hægt að finna ódýrt hjá þeim. Þetta er listinn yfir allar búðirnar í París:

120 r Alésia 75014 PARIS
metró: Alésia

32 av Corentin Cariou 75019 PARIS
metró: Porte de la Villette

centre commercial Italie 2
30 av Italie 75013 PARIS
metró: Place d’Italie

126 r La Boétie 75008 PARIS
metró: Saint-Philippe-du-Roule

53 r Passy 75016 PARIS
metró: La Muette

27 bd Poissonnière 75002 PARIS
metró: Grands Boulevards

143 av Daumesnil 75012 PARIS
metró: Montgallet

7 bd Barbès 75018 PARIS
metró: Barbès-Rochechouart

Annars eru lika dótadeildir (jouets) í öllum vöruhúsunum, þar er yfirleitt mjög gott úrval en sama gildir og um leikfangaþorpið, þetta eru ekki alltaf ódýrustu merkin. Út um alla París má líka finna smáar leikfangabúðir sem selja vandaðri vöru, tréleikföng og fleira sem höfðar til meðvitaðra neytenda. Hér koma ábendingar um nokkrar ágætlega miðsvæðis:

L’Ourson en bois – metró: Bastille eða Gare de Lyon
83, rue de Charenton 75012 París

L’Épée de bois – metró: Censier Daubenton
12, rue de l’Épée de bois 75005 París

Ábendingar um skemmtilegar búðir eru vel þegnar!

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: