//
you're reading...
Uncategorized

Leiðsögumannaréttindi

Um árabil hef ég boðið söguferðir mínar utandyra sjálflærð og að sjálfsögðu lögleg þótt ég hafi ekki haft tilskilin leyfi til að bjóða upp á leiðsögn innandyra í söfnum. Hér mega allir tala úti á götu, einu staðirnir sem hafa takmarkanir og krefjast sérstakra leyfa til að taka til máls, eru ríkislistasöfnin og sögulegir staðir sem ríkið heldur utan um, eins og til dæmis Versalir, sem hafa verið ansi harðir í að vernda leiðsögumenn sína gegn ófaglærðum eins og mér.

Í vetur tók ég því loksins af skarið og skráði mig í nám í menningarmiðlun með tilheyrandi kúrsum í leiðsögn, safnafræðum og öðru nýtilegu efni og er nú stoltur handhafi atvinnuleyfis sem veitir réttindi til að taka hópa í heimsóknir á þjóðarsöfnin og sögulega staði sem tilheyra franska ríkinu.

Námið opnaði í raun fyrir mér ýmsa heima. Ég átta mig betur á starfsumhverfi kollega minna og þótt ég sé sjálf eilíflega efins um gagnsemi þess að lögvernda starfsheiti skapandi stétta, fylltist ég vissulega einhvers konar stolti þegar ég tók upp umslagið og sá kortið mitt í fyrsta skipti. Ég tók að sjálfsögðu mynd af mér með það, sem ég birti nú opinberlega.

Ég mun aldrei kynna mig sem listfræðing og ég er ekki skyndilega orðinn sérfræðingur í listasögu heimsins, þótt námið hafi að stórum hluta verið nokkurs konar þrekraunaútgáfa af listasögunámi. Við þurftum að halda tvo fyrirlestra í viku, annan á frönsku og hinn á ensku, um ákveðin verk sem finna má á söfnum og um byggingar af ýmsu tagi í París. Við flökkuðum frá miðöldum til nútíma í þessum kúrsi sem var satt best að segja svo þungur og erfiður að stundum var mér óglatt þegar ég vaknaði til að mæta í þessa tíma. Ég lærði ógrynnin öll af orðum sem lýsa slaufum og krúsídúllum á listmunum, myndbyggingu og efnismeðferð en nú þyrfti ég að setjast niður með allar glósurnar mínar og koma þeim yfir á íslensku!
Ég veit ekki hvort ég muni nokkurn tímann hafa tækifæri til þess, en, það sem við lærðum í raun aðallega í þessu námi er einmitt sú skemmtilega staðreynd að þetta fag felur í sér endalausa vinnu við að fræða sig um það sem sýna skal í það og það skiptið. Alveg eins og áður verð ég í mínu eilífðar sjálfsnámi, sem er bæði krefjandi og gaman.

Ég lærði líka heilmikið um sýninga- og safnafræði og kynntist fólki úr öllum kimum þessa mikilvæga bransa. Ég hlakka til að koma til Íslands í sumar og ætla að reyna að heimsækja sem flest söfn og skoða með gagnrýnni augum en áður hvernig staðið er að þessum málum. Ég veit að það hafa verið miklar framfarir og Íslendingar eru almennt frekar snöggir að tileinka sér nýjungar, sem er akkúrat málið í dag.

Mig rak í rogastans við eina setningu í bréfinu sem fylgir leyfinu, þar sem sagt er skýrum stöfum að leyfið þurfi ég eingöngu að sýna þegar unnið er fyrir starfandi ferðaþjónustufyrirtæki en ekki ef einstaklingur greiðir mér beint. Ég upplýsti deildina mína um þessa furðulegu klausu og búið er að senda fyrirspurn til ráðuneytisins. Það verður nú aldeilis furðulegt ef ég uppgötva að Versalir hafi verið með derring við mig án þess að hafa lögin á bak við sig! En ég er samt þakklát fyrir að hafa farið í þetta nám og er nú troðfull af nýjum og spennandi hugmyndum sem ég næ vonandi að hrinda í framkvæmd fyrr en síðar. Fyrst þarf ég samt smá næði til að skrifa mastersritgerðina mína því þótt ég hafi fengið leyfið út á nokkra kúrsanna, kemur ekki annað til greina en að ljúka náminu. Kannski fer ég í keppni við Bjarnfreðarson, hvað var hann með mörg háskólapróf? Í vor verð ég með þrjú ef allt gengur upp hjá mér!

 

About parisardaman

femínisti, friðarsinni, umhverfisverndarsinni, glöð í sinni

Umræða

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: